Magnús Ver Magnússon, einn sigursælasti aflraunamaður Íslandssögunnar, og Arnar Már Jónsson, aflraunamaður og júdókennari, hafa slitið 30 ára vinskap sínum með frekar opinberum hætti vegna ágreinings um keppnina Sterkasti fatlaði maður heims.
Arnar Már greindi frá því í samtali við DV árið 2017 að keppnin hafi verið hans hugmynd, eftir að 15 ára gömlum dreng í hjólastól tókst að draga bílinn hans Arnars í hlutlausum gír fyrir utan íþróttahús fatlaðra. Þarna hafi Arnar séð að það væri grundvöllur fyrir því að halda aflraunakeppni fyrir fatlað fólk og útkoman var keppnin Sterkasti fatlaði maður heims sem var fyrst haldin árið 2002. Hafi Arnar Már tryggt sér einkaleyfi á nafninu en í samtalinu við DV sagði Arnar:
„Magnús Ver Magnússon og ég erum miklir félagar, höfum starfað saman í meira en níu ár og hann hefur hjálpað mér mikið í gegnum árin. Í dag eigum við nafnið og keppnina til helminga.“
Arnar Már sagðist frá upphafi hafa leitað leiða til að bæta keppnina og þróa hana svo hún hentaði keppendum. Þessi vinna hafi skilað sér því hugmyndin fór á flug og varð að alheimsíþrótt, fyrsta aflraunakeppnin sem á rætur að rekja til Íslands.
Sjá einnig: Hugdetta varð að alheimsíþrótt
Magnús Ver sagði í viðtali við DV árið 2019 að það sem hann væri stoltastur af á ferli sínum væri keppnin Sterkasti fatlaði maður heims sem Arnar Már hafi komið á legg og Magnús Ver síðar komið að verkefninu sem hafi dafnað með hverju árinu.
„Við vorum einir í heiminum í mörg ár. En síðan fór þetta út fyrir landsteinana og er nú orðið að alheimsíþrótt, aflraunir fatlaðra. […] Þetta er hluti af því að gefa til baka. Það eru fáir jafn þakklátir og fatlaðir og það er ákaflega gefandi að starfa við þetta. Fram að þessu var ekkert í boði fyrir fatlaða kraftamenn annað en að lyfta. Við sýndum fram á að þeir geta gert mun fjölbreyttari hluti í kraftasporti. Bera kúlusteina og hvað eina. Sumt höfum við rekið okkur á að virkar ekki, til dæmis að draga bíla á eftir sér á hjólastólum. En þeir geta vel dregið þá að sér.“
Sjá einnig: Magnús Ver rifjar upp mestu eftirsjána á ferlinum:„Ég gerði afdrifarík mistök“
Nú virðist þó hafa komið babb í bátinn og af færslum Arnars Márs og viðbrögðum Magnúsar Vers við þeim má ráða að þeir hafi undanfarið tekist á um hvor þeirra eigi tilkall til keppninnar, sem nú nýtur alþjóðlegra vinsælda.
Arnar Már segir tíma til kominn að hann rjúfi þögnina áður en ævistarf hans „fari til fjandans“ hann birti því opið bréf á Facebook þar sem hann fór yfir málið. Birti hann tvær sambærilegar færslur, þá fyrri á ensku og þá seinni á íslensku.
„Ég er langt frá því að vera fullkominn maður og er nógu mikill maður til að viðurkenna veikleika mína, meira en margur getur. Ég lifi eftir því að rétt er rétt og rangt er rangt. Hér hafa ansi ljót orð fallið í minn garð af mínum fyrrverandi samstarfsaðila og fyrrverandi vin í yfir 30 ár.
Ég hélt alltaf að hann væri meiri maður en að hætta samstarfi hér á þessu spjalli sem við vorum í og setja sig á háan hest og þykjast hafa fundið upp eða verið í kringum Disabled Strongman frá upphafi. Sorglegt en svo er nú ekki.
Ég ætla ekki að fara á sama plan og drulla yfir hann eins og hann hefur gert hér um mig. Enda væri það þá ansi löng saga.“
Arnar Már rekur að hann hafi verið yfirþjálfari hjá Alþjóðaólympíuhreyfingu fatlaðra á Íslandi í rúmlega 30 ár. Á þessum tíma hafi hann ferðast með keppendum um allan heim, setið tugi fyrirlestra og námskeiða sem meðal annars hafi fjallað um íþróttastarf með fötluðu fólki og hvernig sé best að skipta upp í riðla. Það hafi svo verið árið 1996 sem hann fékk hugmyndina að kraftlyftingakeppni fyrir fatlaða. Hann hafi þá safnað saman steinum, dekkjum og ýmsu öðru, en það var honum hjartans mál að gera þessa keppni að veruleika. Þessi draumur hafi svo ræst árið 2002 þegar keppnin var haldin.
Arnar Már segist hafa haldið átta mót án þess að Magnús Ver, sem hann þó ekki nafngreinir en ljóst er af samhenginu við hvern er átt, hafi komið þar nálægt og sé það sorglegt að nú eigi að bola Arnari Má í burtu, og það af fyrrum starfstarfsfélaga, samstarfsfélaga sem hafi ekki lagt hjarta sitt í þetta verkefni eins og Arnar Már hafi gert. Magnús Ver hafi nú stolið keppninni frá honum með „hégómagirnd sinni“.
Telur Arnar Már ljóst að Magnús Ver viti ekki einu sinni hvað hann sé að gera, en það sjáist þar sem hann hafi komið allri vinnu tengdri keppninni yfir á aðra.
„Ef minn fyrrverandi samstarfsfélagi finnur lykt af peningum þá er hann horfinn. Þetta hefur verið mín hugsjón, mitt barn síðan 1996. Þetta á ég ekki skilið.“
Magnús Ver svaraði Arnari Má í athugasemd og sagði ummæli hans dæma sig sjálf. Þeir hafi átt keppnina saman en Magnús Ver látið Arnari Má eftir að halda henni lifandi. Sjálfur hafi Magnús Ver um tíma íhugað að yfirgefa þennan vettvang út af framgöngu og framkomu Arnars Más undanfarin ár. En svo eftir samtal við marga afreksaflraunamenn úr röðum fatlaðra hafi Magnús Ver ákveðið að halda áfram og hjálpa greininni að vaxa og nota til þess sitt eigið vörumerki. Arnari Má sé frjálst að halda því vörumerki áfram sem þeir báðir eiga, en Magnús Ver vætli að láta það í hans hendur. Arnar Már geti því haldið sín eigin mót ef hann vill og Magnús Ver sé tilbúinn að verða honum út um útbúnað, sé þess þörf.
„Enginn hefur tekið neitt frá honum svo ég skil ekki hvers vegna hann upplifir sig sem svona mikið fórnarlamb. Ég óska honum alls góðs og það var alfarið hans ákvörðun að slaufa þessum 30 ára vinskap því ég ákvað að ég gæti ekki unnið með honum lengur.“
Magnús Ver segist enn trúa á kraftlyftingar án aðgreiningar og fyrir fatlað fólk. Þessi grein sé að stefna í rétta átt en ekki til andskotans.
Ofangreint átti sér stað á Facebook-síðu Arnars Márs, en áður höfðu umræður einnig átt sér stað inn á síðu Magnús Classic Adaptive Strength, sem er Facebook-síða fyrir vörumerki Magnúsar Vers, en samkvæmt Magnúsi Ver var þeirri færslu eytt af Facebook en ekki honum sjálfum.
Þar hefur Magnús Ver verið að kynna mótaröð sem er haldin fyrir fatlaða aflraunamenn undir hans merkjum, og er það mögulega sú mótaröð sem skapraunaði Arnari Má og fékk hann til að líta svo á að Magnús Ver hefði stolið aflraunum fatlaðra undan honum.