fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Fréttir

Arkitekt dauðans: Ása Guðbjörg biður um frið fyrir nágranna sína en var þó tilbúin að svara einni spurningu – „Já það myndi koma sér vel“

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 30. júlí 2023 09:57

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 13. júlí var lífi Ásu Guðbjargar Ellerup snúið á hvolf þegar lögregla mætti heim til hennar og tilkynnti henni að eiginmaður hennar, Rex Heuermann, hefði verið handtekinn og væri grunaður um að vera raðmorðingi. Hún þurfti að yfirgefa heimili sitt á meðan það fylltist af lögreglumönnum og réttarmeinafræðingum sem kembdu hvern krók og kima, og sneru hverjum steini á hvolf í bakgarðinum með gröfu. Friðhelgi heimilisins var rofin og engu hlíft. Nú er Ása snúin aftur heim og er að reyna að átta sig á breyttum aðstæðum, en hún þarf að gera svo undir nálarauga ágengra fjölmiðla og forvitna aðkomumanna sem sitja um húsið og gera það að verkum að hún getur ekki farið út fyrir hússins dyr öðruvísi en að eftir því sé tekið. Hún fær ekki frið og á sem stendur litla von á því að stíga út úr þeirri martröð sem líf hennar er orðið að.

Nágrennið eigi skilið frið

Lögmaður Ásu Guðbjargar er Bob Macedonio. Hann sagði í samtali við Fox fréttastofuna að föstudaginn 13. júlí hafi lögreglan mætt heim til Ásu, henni algjörlega að óvörum, um klukkustund eftir að Rex var handtekinn.

„Þau voru heima hjá sér og lögreglan kemur þangað inn, þetta kom þeim algjörlega í opna skjöldu, og lögreglan sagði þeim hvað væri í gangi.“

Málið liggi þungt á fjölskyldunni.

„Lífi hennar og barna hennar hefur verið alfarið snúið á hvolf.“

Fram hefur komið að Ása hafi mætt í dómsal til að standa við hlið manns síns þegar málið gegn honum var þingfest. Síðar hafi hún rætt við lögreglu og verið sýndar myndir sem hafi sannfært hana um sekt Rex. Hafi hún brugðist við myndunum með því að segja: „Þetta er bara eins og það er.“

Hún sótti í kjölfarið um skilnað sem Rex mun ekki leggjast gegn.

Eftir að Rex var handtekinn þurfti Ása að yfirgefa heimili sitt og verja rúmlega viku á hóteli með börnum sínum. Hún sneri aftur heim á föstudag eftir að aðgerðum lögreglu var lokið. Blaðamenn sátu þó fyrir henni og gengu hart fram með sem varð til þess að Ása þurfti ítrekað að biðjast vægðar. Hún hefur nú sent frá sér yfirlýsingu þar sem hún biðlar enn einu sinni til fjölmiðla og almennings um að veita sér og fjölskyldu sinni svigrúm.

„Fyrir hönd fjölskyldu minnar og þá sérstaklega fyrir eldri nágranna mína, sem líf hverra hefur einnig verið snúið á hvolf út af umfangsmikilli nærveru lögreglu, sem og vegna aðkomumanna og fjölmiðla. Þau eiga skilið að fá að lifa við frið; þau ættu að geta farið með hunda sína í göngutúra og rölta út í búð án þess að myndavélum sé troðið framan í það. Ég biðla því til ykkar að gefa okkur andrými svo við getum endurheimt eitthvað í áttina að eðlilegum aðstæðum í hverfi okkar.“

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hún biður um frið, en á meðan hún dvaldi með börnum sínum á hóteli var hún hundelt af fjölmiðlum sem reyndu að komast að því hvar hún héldi sig. Á sama tíma var hart gengið að fjölskyldu hennar, föður hennar sem er á tíræðisaldri sem og systur hennar.

Söfnun kæmi sér vel

Það vakti athygli á föstudag þegar Ása sendi fjölmiðlum fingurinn fyrir utan heimili sitt. Varla ætti það þó að koma á óvart að kona sem ekki er grunuð um neitt misjafnt, bregðist illa við þegar ítrekaðar óskir hennar um frið eru virtar að vettugi. Eina spurningin sem hún svaraði var frá blaðamanni sem spurði hvort að hún hefði áhuga á því að söfnun yrði komið af stað fyrir hana, en vinur hennar mun vera að reyna koma slíkri af stað á GoFundMe síðunni.

„Já, það myndi koma sér vel,“ sagði Ása.

Ljóst er að áhugi á slíkri söfnun er nokkur. Frá því að rannsókn á Gilgo-strandar morðunum hófst hefur verið haldið úti sérstakri undirsíðu á samfélagsmiðlinum Reddit. Netverjar þar hafa nú um helgina rætt um mögulega söfnun og hvað slíkt væri það minnsta sem samfélagið gæti gert fyrir Ásu og fjölskyldu á þessum versta tíma lífs þeirra.

„Guð má vita hvað þau hafa þurft að þola í þessu húsi. Þau eru lifandi fórnarlömb og eiga stuðning skilið í gegnum þennan harmleik. Maður getur ekki selt hús á einum degi. Þetta tekur allt íma. Á meðan þurfa þau hjáp við að borga reikninga og mat,“ skrifar einn.

Netverjar röktu einnig að Rex skuldaði skattinum gífurlegar fjárhæðir og því sé líklegt að Ása muni ekkert fá af söluandvirði eignarinnar.

Sjónum beint að lögmanni Ásu

Næsta þinghald í málinu verður haldið í næstu viku, þann 1. ágúst, og eftir að lögregla hætti rannsókn á heimili Rex og Ásu hafa fjölmiðlar átt erfitt með að finna nýjar hliðar á málinu. Þar sem Ása er snúin aftur heim og er þar að reyna að halda lífinu áfram, hefur hún því orðið fyrir barðinu á ágengustu miðlunum sem vilja halda fréttaflutningi sínum áfram. Hún hefur þó eins og áður segir ítrekað beðið um frið og veitir ekki viðtöl.

Því hafa sumir miðlar nú beint sjónum að lögmanni hennar, Macedonio. New York Post greinir frá því að Macedonio hafi byrjað feril sinn sem aðstoðarsaksóknari. Ferli hans hjá honum opinbera hafi svo lokið snögglega árið 2008 þegar hann var sakfelldur fyrir vörslu á kókaíni. Hann játaði á sig sakir og var í kjölfarið sviptur málflutningsleyfi sínu. Mun málið hafa varðað um hálft gram af fíkniefninu, sem þykir nokkuð léttvægt í ljósi forsögu málsins. Macedonio hafði nefnilega verið til rannsóknar hjá fíkniefnadeild lögreglunnar í um ár, en hann var grunaður við að hafa ráðskast með vitni og tekið þátt í stórfelldum fíkniefnabrotum. Lögreglan ákvað þó að ákæra hann aðeins fyrir mun vægari sakir og aldrei voru gefnar nánari skýringar á þessum viðsnúningi, en þar sem brotið var minniháttar gat Macedonio síðar fengið leyfið sitt aftur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þessir tíu leikskólar hafa samþykkt að fara í verkfall 10. desember

Þessir tíu leikskólar hafa samþykkt að fara í verkfall 10. desember
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sjaldséð eining í borgarráði – „Þetta hljóti að verða komið gott“

Sjaldséð eining í borgarráði – „Þetta hljóti að verða komið gott“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Hrafnhildur Bridde fasteignasali ákærð fyrir fjárdrátt upp á yfir 115 milljónir króna

Hrafnhildur Bridde fasteignasali ákærð fyrir fjárdrátt upp á yfir 115 milljónir króna
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Pútín-skandall í Moskvu – Tík!

Pútín-skandall í Moskvu – Tík!