Muhammed Emin Kizilkaya, sem er frá Danmörku og af kúrdískum ættum, doktorsnemi í félagssráðgjöf við Háskóla Íslands flutti hingað til lands ekki síst vegna mikils áhuga síns á íslenskum illviðrum. Hann hefur gert nokkuð af því að fara út þegar vont veður skellur á og taka upp myndbönd. Vegna þessa áhugamáls síns hefur hann stundum verið kallaður stormeltir.
Í færslu á Facebook-síðu sinni í dag segir Muhammed frá ferð sinni á gosstöðvarnar við Litla-Hrút og að þar hafi hann fundið skeifu og þótti honum vægast sagt undarlegt að finna slíkan hlut í nálægð við virkt eldgos.
Muhammed segist hafa ferðast að Litla-Hrút á reiðhjóli sínu 2 dögum eftir að gosið hófst. Hann segir að hann hafi fundið hlut í drullupolli nokkur hundruð metra frá gosinu og aðeins örfáa metra frá storknuðu hrauni. Þetta hafi ekki verið steinn heldur ryðgaður hlutur úr málmi og hann gat ekki betur séð en að um hafi verið að ræða skeifu.
Muhammed fór þá að velta fyrir sér að hvað hestar væru að gera nærri eldgosi með hraun allt í kring, djúpar holur í jörðinni og miklar ójöfnur. Hann tók hlutinn með sér og hafði samband við Þjóðminjasafnið sem vísaði honum á Fornleifastofnun og þar hafi orðið fyrir svörum manneskja sem var mjög spennt að sjá hlutinn og hafi staðfest að um væri að ræða skeifu:
„Hún bað mig að gefa upp staðsetninguna. Ég sagði henni nokkuð nákvæma staðsetningu og tjáði henni einnig að ég hefði séð nokkrar undarlegar jarðmyndanir, ekki langt frá þeim stað þar sem ég fann hlutinn og að ég teldi mögulegt að þar væri um að ræða mannvistarleifar.“
Muhammed segir að gosstöðvunum hafi verið lokað daginn eftir að hann heimsótti þær og að lokunin hafi staðið yfir næstu daga á eftir. Hann segir að á meðan hafi hraunið frá gosinu breitt úr sér og nú séu fornleifarannsóknir á svæðinu nánast ómögulegar:
„Samkvæmt mati sérfræðingsins gæti uppruni skeifunnar náð allt aftur til 13. aldar … en hann gæti einnig náð ekki lengra aftur en til 18.aldar þar sem málmar ryðga auðveldlega á Íslandi vegna tíðra veðurfarsbreytinga og mikils vinds.“
Hann segist hafa að beiðni þessa starfsmanns Fornleifastofnunar fyllt út eyðublað þar sem hann veitti helstu upplýsingar um þennan fornleifafund sinn og að þau muni vera í sambandi þegar frekari upplýsingar og niðurstöður rannsókna á aldri skeifunnar liggja fyrir.