fbpx
Mánudagur 22.júlí 2024
Fréttir

Ógnvekjandi niðurstaða nýrrar rannsóknar – Golfstraumurinn er við að hverfa – Er ísöld í uppsiglingu hér á landi?

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 26. júlí 2023 04:05

Svona streymir Golfstraumurinn um Atlantshaf. Mynd:Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Innan fárra ára getur svo farið að Golfstraumurinn hverfi. Líklegast gerist það eftir rúm 30 ár, eða 2057, en það gæti hugsanlega gerst eftir tvö ár. Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar vísindamanna við Kaupmannahafnarháskóla.

Rannsóknin var birt í hinu viðurkennda vísindariti Nature Communications í gær.

Eins og flestir vita þá flytur Golfstraumurinn hlýjan sjó frá Suðurhveli jarðar hingað norður eftir. Þetta gerir að verkum að loftslagið hér á landi og víðar á norðurslóðum er frekar milt miðað á hvaða breiddargráðu við búum. Ef hans nyti ekki við væri loftslagið hér á landi allt annað en í dag, mun kaldara.

Í umfjöllun TV2 um niðurstöður rannsóknarinnar er sjónunum að vonum beint að þeim áhrifum sem hrun Golfstraumsins mun hafa á loftslag í Danmörku. Ætla má að áhrifin verði álíka hér á landi, jafnvel meiri.

Í rannsókninni var gengið út frá því að losun gróðurhúsalofttegunda verði sú sama í framtíðinni og í dag. Ástæðan fyrir yfirvofandi hruni Golfstraumsins, eins og rannsóknin sýnir að muni gerast, er að vegna hnattrænnar hlýnunar bráðnar Grænlandsjökull og það hratt. Kalt vatn streymir því út í sjó og það mun að lokum hafa svo mikil áhrif á Golfstrauminn að hann hverfur.

Ef Golfstraumurinn hverfur mun það hafa þau áhrif í Danmörku að meðalhitinn mun lækka um allt að 10 gráður miðað við það sem hann er í dag. Það mun hafa alvarleg áhrif fyrir danska náttúru. Til dæmis gæti svo farið að beyki deyi út að sögn Peter Tanev, veðurfræðings hjá TV2.

Mikilla breytinga verður þörf í dönskum landbúnaði og víða verður að bæta flutningskerfi heits vatns svo hægt verði að kynda hús nægilega. Tanev sagði að ef niðurstöður rannsóknarinnar séu réttar þá muni  áhrifa breytinganna gæta á heimsvísu og í Danmörku. „Þá byrja ég að hafa áhyggjur af framtíð barnanna minna,“ sagði hann.

Ef litið er á þau áhrif sem hvarf Golfstraumsins mun hafa í Danmörku þá má ganga út frá því að þau verði ekki minni hér á landi. Dýr og plöntur munu hverfa en aðrar tegundir koma í staðinn.

Ef Golfstraumurinn hverfur mun loftslagið í Danmörku hugsanlega líkjast því sem er í hlutum Kanada eða jafnvel í Novosibirsk í Rússlandi en báðir staðir eru á sömu breiddargráðu og Danmörk.

Danir munu áfram geta upplifað sumardaga þar sem hitinn fer í 20 til 25 gráður á daginn en það er einnig hætta á að hitinn verði aðeins um 10 gráður að degi til á sumrin. Þá mun vorið ekki gera vart við sig fyrr en í maí eða júní.

Veturnir verða ískaldir og byrja í október eða nóvember. Það mun snjóa oftar en rigna og ískaldir vetur geta orðið raunveruleikinn í framtíðinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Gestrisni Íslendinga kom spænsku pari gríðarlega á óvart – „Þetta fólk þekkti okkur ekki neitt“

Gestrisni Íslendinga kom spænsku pari gríðarlega á óvart – „Þetta fólk þekkti okkur ekki neitt“