fbpx
Laugardagur 20.júlí 2024
Fréttir

Telja lögreglu hafa fundið bein í bakgarði Rex og Ásu Guðbjargar – „Þetta er að fara að verða næsta Amityville horror húsið“

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 25. júlí 2023 14:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nágrannar Rex Heuermann og eiginkonu hans, Ásu Guðbjargar Ellerup, eru komnir með nóg af rannsókn Gilgo-strandar morðanna, en síðan meinti raðmorðinginn Rex var handtekinn hefur fjölmennt lið lögreglu, fjölmiðla og forvitna tekið nágrennið hreinlega undir sig.  Þangað hafi margir forvitnir einstaklingar lagt leið sína til að fylgjast með aðgerðum lögreglu, enda ekki á hverjum degi sem meintur raðmorðingi er handtekinn. Munu nágrannar óttast að þetta ástand sé komið til að vera, og að ferðamenn geri sér þangað leið til að berja heimili arkitektar dauðans augum.

„Þetta er að fara að verða næsta Amityville horror húsið. Við erum að fara að sjá fólk keyra hérna framhjá og stoppa. Það á eftir að vera gífurleg umferð,“ sagði einn nágranni í samtali við CBS.

„Þetta er ekki að fara að breytast í einhvern sirkus. Allir sem halda að þeir geti bara rúntað hingað niður götuna og stöðvað til að taka myndir, geta átt von á stefnu fyrir að valda umferðartöfum,“ sagði lögreglustjórinn í Nassau-sýslu, Patrick Ryder, í samtali við ABC fréttastofuna. Hann bætti við að lögregla fylgist vel með að óviðkomandi séu ekki að brjóta sér leið inn á rannsóknarsvæðið til að taka myndir eða annað. Jafnvel eftir að lögregla ljúki rannsókn þá muni áfram vera eftirlit til að tryggja næði í nágrenninu. Eftirlitsmyndavélum verði komið upp og lögregla verði sýnileg.

Fundu mögulega bein í garðinum

Rannsókn lögreglu á heimili Rex hefur staðið yfir í um 12 daga en reiknað er með að lögregla ljúki störfum í dag, eða í síðasta lagi í vikulokin. Undanfarna daga hefur lögregla grafið upp bakgarðinn til að kanna hvort þar leynist mögulega líkamsleifar. Pallur við húsið var fjarlægður til að grafa gæti velt hverjum steini við. Hvítu tjaldi var komið upp á svæðinu og sást til bifreiðar réttarmeinafræðings á vettvangi. DailyMail hefur undir höndum myndefni sem myndavéladrónar tóku á flugi yfir eigninni. Þar megi sjá hvítklædda rannsakendur skoða það sem gætu verið bein, þó ekki sé ljóst hvort um manna- eða dýrabein sé að ræða. Netverjar sem hafa fylgst náið með rannsókninni telja þó líklegra að þarna hafi fundist farsímar.

Þar áður var heimilið kembt að innan í leit að mögulegum sönnunargögnum fyrir því að Rex sé hinn alræmdi Gilgo-strandar morðingi. Helst hefur lögregla vonast til að finna svokallaða minjagripi sem raðmorðingjar taka gjarnan úr fórum eða af líkum fórnarlamba sinna. Ekki hefur lögregla gefið upp hvað þeir hafa fundið á heimilinu en lögreglustjórinn í Suffolk, Rodney Harrisson, hefur þó gefið upp að lögregla hafi lagt hald á hluti sem séu þess eðlis að leitin hafi borið árangur. Rannsakendur telja mögulegt að eitt eða fleiri fórnarlömb hafi verið myrt inn á heimilinu, en lögreglustjórinn hefur þó ekki staðfest þá kenningu.

Fram hefur komið að á heimilinu hafi mátt finna öryggisgeymslu sem hýsti gífurlegt magn skotvopna. Geymslan er manngeng og er lokað með stórri járnhurð.

„Starfshópurinn sem við settum saman vinnur enn hörðum höndum að rannsókninni. Við erum ekki enn kominn á þann stað að rannsókn sé formlega lokið. Ég hef verið rannsakandi í langan tíma. Þessi mál eru ekki einföld úrlausnar. Það eru margir angar af þessu púsluspili sem enn þarf að tengja saman,“ sagði Harrison.

Eins hafa farið fram húsleitir í geymslurýmum sem Rex hafði á leigu og á vinnustað hans.

Uppfært: 14:43 – Svo virðist sem að lögregla hafi lokið störfum.

Skoða möguleg tengsl við önnur óupplýst mál

Lögreglan í Las Vegas er nú að fara yfir óupplýst mál í sínu umdæmi til að kanna hvort að Rex Heuermann gæti verið gerandi þeirra. Rex átti þar hlutdeild í skiptileiguhúsi.

„Við erum að vinna með öðrum lögregluembættum, alríkislögreglan fylgist áfram náið með, til að sjá hvort það eru einhverjar tengingar sem þarf að gera. Ég get sagt ykkur þetta: rannsóknin heldur áfram. Við munum, og lögreglustöð okkar mun, áfram fylgja því fast eftir að ná fram réttlæti fyrir önnur fórnarlömb.“

Eins mun lögreglan í Suður-Karólínu vera að rannsaka fasteignir sem Rex á í umdæminu og samhliða hvort að mögulegt sé að hann tengist þar 18 ára stúlku sem hvarf sporlaust í um 50 kílómetra fjarlægð frá einni eigninni.

Eins og áður hefur komið fram er svo lögreglan í Atlantic city að kanna hvort Rex gæti mögulega verið sökudólgurinn í máli fjögurra kvenna, sem eru taldar hafa starfað í vændi, sem fundust látnar árið 2006, en þeim hafði verið banað með áþekkum hætti og þeim fjórum konum sem Rex er grunaður um að hafa banað og komið fyrir á Gilgo-ströndinni.

Rannsóknarlögreglumenn hafa eins leitað til kvenna sem eru að afplána dóm fyrir sölu á vændi til að kanna hvort þær kannist við að hafa átt samskipti við Rex. Tvær konur í fangelsinu í Suffolk hafa þegar greint frá slíkum samskiptum og munu þær eiga hljóðupptökur. Þær áttu í samskiptum við hann í gegnum ýmsa samfélagsmiðla.

„Hann hafði leitað til þeirra eftir kynlífsþjónustu,“ sagði fógetinn Errol Toulon. „Þær tóku við símtölunum en sem betur fer hittu hann ekki.“

Það sem kom lögreglu á spor Rex var bifreið af gerðinni Chevrolet Avalanche sem vitni í máli eins þolandans hafði lýst fyrir lögreglu. Rex hafði átt slíka bifreið en afsalað henni til bróður síns árið 2012. Til að setja tímasetninguna í samhengi er rétt að minnast þess að líkamsleifar kvennanna sem Rex er sakaður um að hafa banað fundust á árunum 2010 og 2011. Mun lögregla nú leita að hverju því sem gæti tengt fórnarlömbin við þessa tilteknu bifreið.

„Allt frá hári til minjagripa, til skartgripa,“ sagði Harris.

Vitnisburðurinn sem kom upp um Rex var hunsaður í áratug

Vitnið sem lýsti bifreiðinni er David Schaller, en hann var meðleigjandi Amber Costello, sem Rex er sakaður um að hafa banað. David segir að hann hafi lýst því fyrir lögreglu að Amber hafi átt í útistöðum við einn skjólstæðing áður en hún var myrt. Hann hafi sagt að maðurinn sem þeir væru að leita eftir væri gífurlega hávaxinn. Hann væri vaxinn eins og Frankenstein-skrímslið með „tómt augnaráð“ og keyrði fyrstu kynslóð af Chevrolet Avalanche. Maðurinn hafi verið óvenjulega hávaxinn og hafi bifreið hans eins verið óvenjuleg. David sagðist hafa séð þennan mann hóta Amber, sem starfaði stundum í vændi. Þegar David hafi verið tjáð að Amber væri látinn hafi hann umsvifalaust hugsað um þennan tiltekna mann.

David hefur lýst yfir vonbrigðum sínum yfir að lögregla hafi ekki tekið vitnisburð hans alvarlega fyrr en mörgum árum síðar. Það hafi ekki verið fyrr en málið var fært nýjum starfshóp sem lýsing hans á bifreiðinni var tekin alvarlega. Hefði lögregla gert vinnu sína strax hefði Rex fyrir löngu verið handtekinn.

Rex hefur verið á sjálfsvígsvakt frá því að hann var hnepptur í gæsluvarðhald. Þetta felst í því að náið eftirlit er með honum haft. Mun þetta úrræði hafa verið ákveðið eftir að læknar gerðu geðmat á Rex. Mun Rex vara hinn rólegasti í fangelsinu. Hann eyði tímanum mest í koju sinni og sýni litlar tilfinningar út á við. Samkvæmt verjanda Rex mun hann þó vera í áfalli. Hann hafi lýst yfir sakleysi sínu og óttist að fá ekki sanngjarna málsmeðferð þar sem umfjöllun um málið hafi gert það að verkum að erfitt verði að skipa kviðdóm sem geti talist með öllu óvilhallur.

Ekkert hæft í fréttum um hljóðeinangrað herbergi

Lögregla hefur vísað á bug fréttum sem bárust í vikunni um að á heimili Rex og Ásu Guðbjargar hafi fundist hljóðeinangrað herbergi. Aðeins hafi fundist áðurnefnd öryggishvelfing. Einn fyrrum kollegi Rex sagði í samtali við Post að arkitektinn hafi tekið sér góðan tíma í að koma öryggishvelfingunni upp.

„Þetta er ekki bara falið herbergi – þetta er alvöru hvelfing. Hún er með risastóra og þunga öryggishurð. Hann fór og steypti nýja steinsteypu veggi, alveg rosalegt magn af steypu til að hjúpa þetta herbergi. Líklega er steypan svona 60-90 sentimetrar að þykkt.“

Rétt er að minnast þess að líkt og fram hefur komið þá hefur Ása Guðbjörg Ellerup sótt um skilnað og mun Rex ekki ætla að hreyfa við mótbárum. Hún hefur óskað eftir frið fyrir sig og fjölskyldu sína til að takast á við þetta gífurlega áfall. Samkvæmt óstaðfestum heimildum mun vegabréf Ásu enn vera inn á heimilinu sem hún hélt með Rex. Lögregla hafi boðið henni að nálgast það en hún þó ekki þegið það boð til þessa. Talið er að Ása hafi ætlað að fljúga til Íslands í ágúst, en þau áform hafi verið gerð áður en þetta hræðilega mál kom upp.

Saksóknarembættið í New York hefur boðað til blaðamannafundar fyrir utan heimili Rex og Ásu síðar í dag. Ekki er ljóst hvað verður þar rætt, en þar á vettvangi eru nú staddir þó nokkrir áhugamenn um glæpamál sem hafa deilt því sem fyrir augum ber á Twitter og jafnvel í beinu streymi á Youtube.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Mogginn gagnrýnir lögreglustjóra harðlega – „Ljóst að Höllu Bergþóru lög­reglu­stjóra varð illi­lega á í mess­unni“

Mogginn gagnrýnir lögreglustjóra harðlega – „Ljóst að Höllu Bergþóru lög­reglu­stjóra varð illi­lega á í mess­unni“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ótrúlegar myndir af einangruðum ættbálk í Perú – Heimkynni þeirra eru í hættu

Ótrúlegar myndir af einangruðum ættbálk í Perú – Heimkynni þeirra eru í hættu