Norsk yfirvöld hafa sent handtöku- og framsalsbeiðni til íslenskra yfirvalda gegn Eddu Björk Arnardóttur. Henni er stefnt til dóms í Noregi dagana 9. og 10. ágúst þar sem hún hefur ekki komið þremur sonum sínum til föður þeirra í Noregi en faðirinn hefur forræði yfir þeim.
Málefni Eddu og barnsföður hennar komust í kastljós fjölmiðla á útmánuðum árið 2022 þegar Edda kom með drengina hingað til lands með einkaflugvél, í óþökk föðurins sem hefur forræði yfir þeim í Noregi. Allar götur síðan hafa synirnir dvalist hjá Eddu en henni hefur verið gert með úrskurðum á öllum dómstigum (þ.e. úrskurðir héraðsdóms og Landsréttar, en Hæstiréttur synjaði um áfrýjunarleyfi) hér á landi að afhenda drengina til Noregs.
Edda Björk fjallar um nýjustu vendingar í málinu á Facebook-síðu sinni og þar segir:
„Þetta bréf fékk lögmaðurinn minn í Noregi sent en þar kemur fram að reynt hafi verið að stefna mér til að mæta til réttarhalda sem eru áætluð 9. og 10. ágúst þar í landi en þar sem ekki hafi tekist að birta mér stefnu þá verði send beiðni nú þegar til Íslands og þess óskað að ég verði handtekin og framseld til Noregs.
Málið er bara að það hefur aldrei verið reynt að birta mér stefnu og enginn spurt hvort ég ætli að mæta eða ekki. Mjög einfalt að hafa samband við lögmenn mína líka og það hefur heldur ekki verið gert.
Lögreglan úti óskaði eftir að skýrsla yrði tekin af mér á Íslandi, lögreglan hérna hafði samband við mig og óskaði þess og ég mætti strax næsta dag. Svo ekki hafa þeir haft slæma reynslu ef þeir bara biðja.
Þetta er svo fáránlegt allt og lýsir að manni finnst helst bara miklum pirringi að ég sé svona “óhlýðin” að lúta ekki dómi þar sem börnin mín eru í gíslingu eins manns.“