Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, segir í tilkynningu að þær „sorglegu fjölskudeilur“ sem hafi verið í opinberri umræðu undanfarna daga séu sér með öllu óviðkomandi og hafi svo verið um langt árabil. Segir hann þær tilkomnar vegna erfðadeilu í systkinahópi föður hans, Daða Einarssonar, og að hann hafi ákveðið að taka eindregna afstöðu með föður sínum í hinum hatrömmu erjum. Þrjár systur sem tengjast Ásmundi Einari fjölskylduböndum birtu í vikunni fyrsta hlaðvarpsþátt af fjórum sem ber yfirskriftina Lömbin þagna ekki en þar er Ásmundur Einar borinn þungum sökum ásamt föður sínum Daða.
„Engu að síður er langt síðan mér var það ljóst að nærvera mín í þessum ágreiningi gerði hvorki mér, fjölskyldu minni, né öðrum nokkurt gagn. Þess vegna steig ég út úr þessum átökum í eitt skipti fyrir öll fyrir mörgum árum síðan og mun ekki tjá mig um málið á öðrum vettvangi en þeim sem þar til bærir opinberir aðilar kunna mögulega að leita eftir. Ég á mér fyrst og fremst þá einlægu von að þessum fjölskylduharmleik ljúki sem allra fyrst,“ segir Ásmundur.
Í tilkynningunni segist hann ekki ætla að glæða þá elda sem nú sé reynt að kveikja með útskýringum né heldur með því að bera af sér endurteknar rangar sakagiftir. Segist hann vilja vekja athygli á þeirri staðreynd að hann hafi aldrei verið ákærður fyrir ólögmætt athæfi vegna þessara deilna né yfirheyrður vegna málsatvika.
Ein af systrunum, Ása Skúladóttir, skoraði meðal annars á Ásmund Einar að mæta sér í sjónvarpssal varðandi málið en yfirlýsingin bendir til þess að af því verði ekki.