Skipuleggjendur Druslugöngunnar árið 2023 hafa sent frá sér tilkynnningu þess efnis að gangan í ár muni fara fram næstkomandi laugardag, 22. júlí, klukkan 13:00 á Sauðárkróki og klukkan 14:00 í Reykjavík. Um er að ræða kröfugöngu og samstöðufund í kjölfarið.
Í tilkynningunni segir:
„Þann 22. júlí næstkomandi (á laugardegi) verður Druslugangan haldin hátíðleg á nýjan leik.
Gengið verður frá Hallgrímskirkju kl. 14:00, niður Skólavörðustíg og Bankastræti og lýkur göngunni við Austurvöll með samstöðufundi, ræðuhöldum og lifandi tónlist.
Á sama degi verður Druslugangan haldin í annað sinn á Sauðárkróki, þar sem lagt verður af stað frá Árskóla klukkan 13:00.
Druslugangan er jafnréttisganga sem gengin hefur verið á hverju ári síðan 2011 (að COVID undanskildu).
Með því að koma saman, öskra og ganga sýnum við samstöðu okkar með þolendum kynferðisofbeldis í verki og skilum skömminni sem hefði aldrei átt að vera okkar.
Fólk af öllum kynjum, á öllum aldri og úr öllum áttum kemur saman einu sinni á ári til þess að taka afstöðu gegn ofbeldi og neita að samþykkja kynferðisofbeldi og kerfislægt misrétti sem ásættanlegan hluta samfélagsins.
Í ár er áherslan- rót vandans – við göngum enn vegna þess að þrátt fyrir tvær #metoo byltingar og öfluga jafnréttisbaráttu síðustu ára fer jafnréttisvitund ungs fólks dalandi, gerendameðvirkni grasserar og drusluskömmun er rótgróið samfélagsmein. Höldum umræðunni á lofti og mótmælum kynbundnu ofbeldi með því að fjölmenna á Druslugönguna.“