fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
Fréttir

Ryan var rekinn úr starfi á Keflavíkurflugvelli – Eiginmanninum Ólíver boðið nýtt starf en Ryan ekki – „Svona hegðun þarf að stoppa og þetta á ekki að líða hjá neinum fyrirtækjum“

Ragna Gestsdóttir
Þriðjudaginn 18. júlí 2023 17:38

Ólíver og Ryan Mynd: Aðsend

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ólíver Steinar Mikulcik Jensson sagði nýlega starfi sínu hjá Airport Associates á Keflavíkurflugvelli lausu eftir að hafa unnið þar í innritun síðustu sjö ár. Uppsögnin var þó ekki komin til af góðu. 

Í færslu á Facebook þar sem Ólíver fer yfir málið segir hann starfið hafa verið „eitt skemmtilegasta starf sem ég hef unnið við og skemmtilegasta fólk sem ég hef unnið með. Eiginlega bara vinir mínir síðustu ár.“

Í janúar í fyrra flutti eiginmaður hans, Ryan David Mikulcik, til Íslands, en hann hafði starfað sem lögreglumaður í Bandaríkjunum í 30 ár. Í desember síðastliðnum byrjaði Ryan einnig í vinnu hjá Airport Associates. „Við vorum á sömu vöktum. Augljóslega vildum við eiga frí saman enda erum við mikið að ferðast og viljum eyða tíma saman,“ segir Ólíver sem segir eiginmanninn fyrirmyndarmann, góðan starfsmann og aldrei hafi verið kvartað undan honum.

Hæstánægðir á sömu vakt og allt gekk vel

„Allt gekk vel upp á flugvelli. Við báðir mjög hressir og skemmtilegir gæjar. Höfðum virkilega gaman af því að vinna saman og allir höfðu gaman í vinnunni. Við héldum oft vinnuhitting eða buðum vinnufélögum heim til okkar í vinnupartý. Líka bara svo að hann kynnist mínum vinum. Hann er alltaf mjög kurteis við samstarfsmenn og farþega. Gerði allt sem hann var beðinn um að gera og ekkert vesen eða kvartað undan honum. Vildi læra og kunna á allt. Hann er mjög stundvís og jákvæður,“ segir Ólíver um Ryan.

Segir Olíver að þrátt fyrir að allt virðist í lagi út á við þá viti ekki allir hvað gerist bak við tjöldin. Segir hann að stéttarfélag þeirra, VR, hafi í janúar beðið starfsmenn um að stofna spjallgrúbbu á miðlinum Workplace, enda einföld leið til að ná til 120 starfsmanna í einu, sem allir vinna á vöktum og alltaf einhverjir erlendis. Starfsmenn áttu að ræða þar hugmyndir þar sem framundan var fundur Airport Associates og stéttarfélagsins og voru starfsmenn beðnir um að koma með hugmyndir sem ræða skyldi á fundinum.

Ryan kom með tillögur í starfsmannaspjalli

Segir Ólíver að í spjallinu hafi meðal annars verið rætt um hvað það væri ósanngjarnt af yfirmönnum að taka prósentu af launumstarfsmanna. „Álag sem heitir FLE-álag sem var að rífa aðeins upp launin okkar. Það hefur alltaf verið hjá okkur þar sem við fáum ekki frímiða eins og til dæmis er hjá Icelandair,“ segir Ólíver sem segir Ryan hafa komið með tillögur í spjallinu.

„Maðurinn minn kemur frá Bandaríkjunum og stéttarfélög þar eru virkilega sterk og standa við bakið á einstaklingum. Ryan segir í spjallinu að það eigi að ræða við starfsfólkið, láta vita þegar eitthvað er tekið af launum og það væri bara almennilegt að gera það. Því auðvitað eru laun mikilvæg hjá fólki og allir voru sammála þessu sem hann sagði. Einnig spurði hann af hverju fyrirtækið greiddi ekki að minnsta kosti hluta af símakostnaði starfsfólks þar sem allir nota persónulega síma sína í vinnutengd málefni. Allir voru sammála þeirri tillögu líka.“

Í samtali við DV segir Ólíver að spjallið á Workplace hafi aðeins átt að vera á milli starfsmanna. „Ekki yfirmanna. Einhvern veginn komust þeir í það eða hafa aðgang að þessu eða einhver hefur sýnt þeim það sem var rætt um.“

Kallaður á fund og rekinn að sögn vegna kvartana

Stuttu eftir að þessi umræða fór fram á Workplace kallaði deildarstjórinn Ryan inn á skrifstofu sína. „Það var sagt við hann að hann væri alltof nýr til þess að ræða um stéttarfélög og hann væri mest neikvæðasti starfsmaðurinn á svæðinu og hann væri með stærsta kjaftinn,“ segir Ólíver sem segir eiginmann sinn hafa verið gáttaðan að vera kallaður á þennan fund. Daginn eftir fékk hann símtal um að mæta á fund deildarstjórans, bað hann um að hafa Ólíver með sem var neitað, en samþykkt að hann fengi að taka trúnaðarmann með sér.

Ólíver beið fyrir utan meðan fundurinn fór fram, stuttu seinna segir hann eiginmann sinn og trúnaðarmanninn hafa gengið út, báða tárvota og eiginmann hans í áfalli.

„Hann sagði við mig að þau vildu ekki endurnýja samninginn hans því samskiptin á milli hans og okkar deildarstjóra væru ekki góð. Trúnaðarmaðurinn sagði að hann hefði aldrei séð yfirmenn koma svona fram við fólk, enda í tárum og sjokki yfir þessu. Augljóslega var samningurinn hans ekki endurnýjaður út af því að hann var að koma með hugmyndir fyrir betri vinnustað og ræða hvað ætti að tala um á fundinum með stéttarfélaginu,“ segir Ólíver. 

Sagði starfinu upp til að standa með eiginmanninum

Sagðist hann hafa ákveðið á þessari stundu að segja starfi sínu lausu, bæði vegna þess að hann hafi engan áhuga að vinna hjá fyrirtæki sem kemur svona fram og einnig til að standa með maka sínum. Sóttu þeir dót sitt og sögðu samstarfsfólki frá hvað hefði gengið á.

„Það voru allir í sjokki og fólk var bókstaflega grátandi. Sumir löbbuðu líka út og hættu.“

Ákváðu Ryan og Ólíver að fara yfir til skrifstofu Icelandair og athuga hvort þar væri laus vinna fyrir þá, var þeim bent á að sækja um á netinu sem þeir gerðu degi síðar. 

„Daginn eftir var okkur sagt af bæði starfsmönnum Airport Associates og Icelandair að okkar yfirmenn hjá Airport Associates hafi sést þann dag fara yfir á skrifstofu Icelandair og talað við deildarstjórann þar. Okkur fannst það mjög skrítið. Seinna komumst við að því að þau voru að ræða um hvað hafði gerst,“ segir Ólíver.

Atvinnuviðtal en aðeins öðrum boðin vinna

Nokkrum dögum seinna var þeim báðum boðið í atvinnuviðtal hjá Icelandair sem gekk ágætlega að sögn Ólívers. Ryan var þó tjáð að „yfirmennirnir okkar sögðu við deildarstjórann hjá Icelandair að hann hafi margoft fengið fullt af kvörtunum undan honum í starfi og viðvörun. Hann skildi ekkert og þetta er náttúrulega bara ekki rétt. Hann útskýrði allt það sem gerðist deginum áður.“

Stuttu seinna bauð Icelandair Ólíver vinnu en ekki Ryan, sem sendi fyrirspurn með tölvupósti til Icelandair og spurði hver væri ástæðan fyrir því að hann var ekki ráðinn. „Svarið sem hann fékk var út af því það sem yfirmennirnir okkar sögðu við Icelandair,“ segir Ólíver, sem segir Ryan því næst hafa sent tölvupóst til fyrrum deildarstjóra þeirra og spurt hvað hefði verið sagt við Icelandair og hvaðan kvartanir undan honum kæmu. 

„Það hefur aldrei neinn kvartað yfir honum. Umsjónarmenn, vaktstjórar og aðrir starfsmenn hafa aldrei kvartað. Hún [deildarstjórinn] sagði að þetta væri algjör vitleysa, þau hefðu verið þarna til að gefa meðmæli. Hvernig voru þau að gefa meðmæli deginum áður en við sækjum um vinnu og hvorugt þeirra sett sem meðmælendur?“ segir Ólíver.

Enn að vinna úr áfallinu og sárir yfir framkomunni

Nær fjórir mánuðir eru liðnir frá þessu atviki og segir Ólíver þá enn vera að vinna í þessu áfalli og þeir vilji ekki gefast upp fyrr en sannleikurinn komi fram. Segir Ólíver í samtali við DV að þeir Ryan hafi leitað aðstoðar hjá VR. 

„Þau segja að við höfum ekkert. Þótt við séum með tölvupóst til dæmis frá Icelandair að ein af þeim ástæðum fyrir því að hún vildi ekki ráða hann er vegna þess að Airport Associates kom og laug upp á hann. Icelandair hefur sagt það líka við VR og þeim finnst það ekki næg sönnun í gegnum síma,“ segir Ólíver. 

„Ennþá í dag segir Airport Associates að það sé ekki rétt að þau hafi ekki farið til Icelandair og sagt að hann hafi fengið viðvörun og kvartanir. Þó að við séum með það skriflegt frá bæði Airport Associates og Icelandair. Er bara í lagi að yfirmenn komi svona fram við fólk sem vinnur undir þeim?“ spyr Ólíver, sem segir það ljóst að Airport Associates vilji aðeins ráða inn ungt fólk sem hefur ekki vit á stéttarfélögum eða þori ekki að segja neitt til þess að geti komist upp um svona mál.

„Þetta er það sem maður fær fyrir að standa með sjálfum sér og sínum samstarfsmönnum. Þetta er búið að vera mjög erfitt fyrir okkur báða síðustu mánuði. Maður hugsaði um þetta stanslaust aftur og aftur, svefnlausar nætur, þunglyndi,“ segir Ólíver sem segir málið ekki snúast um peninga.

„Þetta snýst um hvernig þetta fólk kom fram við okkur, laug fram og til baka. Fór yfir til annarra fyrirtækja og sagði hluti sem eru ekki sannir og gerðu hvað sem er til að komast upp með þetta. Svona hegðun þarf að stoppa og þetta á ekki að líða hjá neinum fyrirtækjum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Talaði Trump af sér?

Talaði Trump af sér?
Fréttir
Í gær

Pólski forsætisráðherrann segir að friðarviðræður hefjist hugsanlega í vetur

Pólski forsætisráðherrann segir að friðarviðræður hefjist hugsanlega í vetur
Fréttir
Í gær

Óprúttnir netglæpamenn herja á ferðaþjónustufyrirtæki – „Þeir kaupa þjónustu með fölskum kortanúmerum“

Óprúttnir netglæpamenn herja á ferðaþjónustufyrirtæki – „Þeir kaupa þjónustu með fölskum kortanúmerum“
Fréttir
Í gær

Gamla góða Cocoa Puffs aftur á leið í verslanir

Gamla góða Cocoa Puffs aftur á leið í verslanir
Fréttir
Í gær

Ólafur Ágúst spyr hvort Vernd sé einkarekið fangelsi í dulbúningi – „Ákveðin tegund þrælahalds“

Ólafur Ágúst spyr hvort Vernd sé einkarekið fangelsi í dulbúningi – „Ákveðin tegund þrælahalds“
Fréttir
Í gær

Selenskíj varpar ljósi á það hversu margir úkraínskir hermenn hafa fallið í stríðinu

Selenskíj varpar ljósi á það hversu margir úkraínskir hermenn hafa fallið í stríðinu