Þingfesting næsta föstudag á ákæru vegna morðsins á Bartlomiej Kamil Bielenda verður lokuð. Er það samkvæmt ákvörðun Jónasar Jóhannssonar dómara við Héraðsdóm Reykjaness vegna ungs aldurs sakborninganna.
RÚV greinir frá og segir dómari í svari við fyrirspurn fréttastofu RÚV að þar sem þrír af fjórum sakborningum í málinu séu undir 18 ára aldri og teljist því börn hafi hann talið óhjákvæmilegt að boða til lokaðs þinghalds á föstudag. Sú ákvörðun standi óbreytt, en samkvæmt lögum um meðferð sakamála getur dómari ákveðið að loka þinghaldi að öllu leyti eða hluta ef sakborningur er yngri en 18 ára.
Þrír drengir á aldrinum 17 til 19 ára eru ákærðir fyrir að hafa banað Bartlomiej á bílastæðinu við Fjarðarkaup þann 20. apríl og sautján ára stúlka er ákærð fyrir brot á hjálparskyldu. Bartlomiej var stunginn oftar en einu sinni með hnífi og úrskurðaður látinn á vettvangi. Hann var 27 ára og átti eina tveggja ára dóttur.
Við þingfestingu á föstudag verða sakborningar beðnir um að gefa upp afstöðu sína til sakarefnanna. Segir Jónas að við þingfestingu muni hann kanna sjónarmið ákæruvaldsins, verjanda, sakborninga og forsjáraðila barnanna þriggja til þess hvort seinni þinghöld í málinu verði einnig lokuð eða ekki.
Drengirnir hafa setið í gæsluvarðhaldi frá 21. apríl. Tveir þeirra á Stuðlum vegna ungs aldurs þeirra og einn í fangelsinu á Hólmsheiði, þar sem heil deild var rýmd til að tryggja að varðhaldið væri með sem minnst íþyngjandi hætti. Stúlkan sat einnig um tíma í gæsluvarðhaldi en var látin laus með úrskurði Landsréttar.