Héraðsdómur Reykjavíkur kvað 12. júlí upp dóma yfir fjórum mönnum. Þetta eru bræðurnir Rafal Romaniuk og Krysztof Romaniuk og samverkamenn þeirra; Rafal Adrian Olchanowski og Jacek Ciunczyk.
Rafal Romaniuk, Jacek Ciunczyk og Rafal Adrian voru ákærðir fyrir stórfellt fíkiniefnalagabrot með því að hafa, í iðnaðarhúsnæði í Hafnarfirði haft í vörslu sinni, í sölu og dreifingarskyni, 70 kannabisplöntur, 34,7 kíló af maríhúana, 11,3 kíló af kannabisblönduðu efni og 8,2 kíló af kannabislaufum og fyrir að hafa um nokkurt skeið staðið í kannabisræktun.
Rafal Romaniuk og Krysztof Romaniuk voru ákærðir fyrir að hafa í bifreið sem staðsett var á bifreiðastæði í Kópavogi staðið að framleiðslu á 4 kílóum af amfetamíni í sölu – og dreifingarskyni og haft í vörslum sínum í sama skyni 50 millilítra af amfetamíni.
Rafal Romaniuk var enn fremur ákærður fyrir að hafa, í félagi við þekktan aðila, brotist inn í íbúð og stolið þaðan Rolex-úri að verðmæti 1,2 milljónir króna, Louis Vuitton tösku, Louis Vuitton snyrtitösku og Louis Vuitton belti.
Segir í dómnum að lögreglan hafi sett upp eftirlitsmyndavél, í febrúar síðastliðnum, og búnað til hljóðupptöku í iðnaðarhúsnæðinu eftir að grunur vaknaði um að þar færi fram kannabisræktun. Með upptökunum gat lögreglan tengt Rafal Romaniuk við húsið en hann hafði áður legið undir grun lögreglu sem hóf í framhaldinu eftirlit með símum hans og bifreiðum.
Rannsókn lögreglu leiddi til þess að grunur féll einnig á Rafal Adrian Olchanowski og Jacek Ciunczyk.
Í dómnum kemur einnig fram að lögregla hafi fylgst með ferðum og samskiptum bræðranna, Rafal Romaniuk og Krysztof Romaniuk, eftir að sá síðarnefndi kom til landsins í febrúar. Segir að þeir hafi ekið um höfuðborgarsvæðið og orðið sér úti um áhöld og efni til að framleiða fíkniefni, sem voru meðal annars grafinn í jörðu í skóglendi nokkru. Fylgdist lögregla með hverju skrefi þeirra uns þeir voru loks handteknir.
Nokkrum dögum áður en bróðir hans kom til landsins fylgdist lögreglan með ferðum Rafal Romaniuk og annars manns. Segir í dómnum að lögreglan hafi með upptökubúnaði í bifreið Rafal tekið upp samtöl hans og mannsins. Ræddu þeir skipulagningu innbrots í þá íbúð sem þeir stálu Rolex-úrinu og Louis Vuitton varningnum. Nefndu þeir meðal annars í samtölunum að hafa sérstaklega á Louis Vuitton vörunum. Yfirgáfu þeir bifreiðina en þegar þeir sneru aftur mátti ráða að innbrotinu væri lokið og töldu þeir sig hafa stolið hlutum að verðmæti hálfrar milljónar króna.
Rafal Romaniuk játaði fíkiniefnalagabrotin fyrir dómi en sagðist aðeins hafa verið að hjálpa Rafal Adrian Olchanowski við kannabisræktunina og amfetamínframleiðslan hafi verið í greiðaskyni við vin en bróðir hans hefði ekki komið nálægt henni. Hann vildi ekki nafngreina vininn. Hann játaði innbrotið en sagðist hafa verið að innheimta skuld fyrir pólskan mann sem sagði að íslenskur maður sem skuldaði sér peninga fyrir vinnu byggi í íbúðinni. Síðar kom í ljós að þessi íslenski maður bjó ekki í íbúðinni sem brotist var inn í.
Jacek Ciunczyk játaði fíkniefnalagabrot en sagði þátt sinn smávægilegan og hann hafi aðeins aðstoðað Rafal Adrian Olchanowski við kannabisræktunina, eftir að sá síðarnefndi hafði leyft honum að geyma verkfæri hjá sér, og ekki haft neinn fjárhagslegan ágóða af henni.
Rafal Adrian Olchanowski játaði fíkniefnalagabrot en neitaði að tjá sig um meinta refsiverða háttsemi og að svara spurningum ákværuvaldsins og dómara. Hann svaraði hins vegar spurningum verjanda síns. Sagðist hann vera með hreina sakaskrá en hefði séð kannabisframleiðsluna sem eina úrræðið til að geta greitt skuldir. Rafal Romaniuk og Jacek Ciunczyk hefðu aðeins aðstoðað sig af greiðasemi.
Krysztof Romaniuk játaði að hafa vitað af amfetamínframleiðslu bróður síns, sem hann var einnig ákærður fyrir. Hann kom hingað til lands til að heimsækja foreldra þeirra og ætlaði sér að dvelja hér í þrjá daga. Það hefðu verið mistök hjá sér að stöðva ekki bróður sinn en að öðru leyti hefði hann engan þátt átt í amfetamínframleiðslunni.
Dómarinn féllst ekki á fullyrðingar verjenda Rafal Romaniuk og Jacek Ciunczyk um að þeir hefðu játað þátt sinn í kannabisframleiðslunni að fullu. Þeir og einnig Rafal Adrian Olchanowski voru margsaga í skýrslutöku hjá lögreglu og fyrir dómi um þátt þeirra tveggja í kannabisræktuninni. Ljósmyndir og hljóðupptökur þóttu hins vegar sanna þátt þeirra beggja í kannabisræktuninni og að hann hefði verið meiri en þeir héldu fram. Voru þeir því allir þrír sakfelldir fyrir þennan þátt málsins.
Þegar kemur að amfetamínframleiðslunni þótti skýlaus játning Rafal Romaniuk vera í samræmi við gögn málsins. Neitun bróður hans þótti ekki trúverðug. Var hann sagður hafa verið margsaga og upptökur af samtölum milli bræðranna í sendibifreiðinni þóttu gefa til kynna að þáttur hans væri mun meiri en hann héldi fram. Ljósmyndir sem sýndu meðal annars bræðurna kaupa varning til framleiðslunnar, í sameiningu, þóttu einnig gefa það til kynna. Voru bræðurnir því báðir sakfelldir.
Í ljósi skýlausrar játningar á innbrotinu og þjófnaðinum sem hann var ákærður fyrir var Rafal Romaniuk sömuleiðis sakfelldur fyrir þann ákærulið.
Rafal Romaniuk hefur áður hlotið dóm fyrir þjófnað hér á landi. Í ljósi brotanna, innbrots, þjófnaðar og stórfelldra brota á fíkniefnalögum, sem hann var ákærður fyrir í þetta sinn þótti hæfilegt að dæma hann til fangelsisvistar í fjögur ár og sex mánuði. Hann hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 11. febrúar 2023 og dregst sú vist frá dómnum.
Jacek Ciunczyk átti hreinan sakaferil að baki hér á landi og var það metið honum til málsbóta en að teknu tilliti til magns þeirra kannabisefna sem hann var ákærður fyrir að framleiða í þeim tilgangi að selja þótti hæfilegt að dæma hann til 20 mánaða fangelsisvistar. Gæsluvarðhald sem hann sætti frá 11. til 15. febrúar á þessu ári kemur þar til frádráttar.
Rafal Adrian Olchanowski játaði brot sín skýlaust og átti hreinan sakaferil að baki hér á landi. Það var metið honum til refsilækkunar en á móti var hið mikla magn kannabisefna sem hann var ákærður fyrir að rækta og ætla til sölu metið honum til refsiþyngingar. Hæfilegur fangelsisdómur þótti því vera 20 mánuðir.
Það var metið Krysztof Romaniuk, sem áður hefur hlotið dóm hér á landi fyrir fíkniefnamisferli, til refsilækkunar að hann hefði hagað sér vel í gæsluvarðhaldi. Í ljósi magns og styrks þess amfetamíns sem hann var ákærður fyrir að framleiða í þeim tilgangi að selja, í samstarfi við bróður sinn, þótti hæfilegt að dæma hann til fangelsisvistar í þrjú ár og sex mánuði. Gæsluvarðhald sem hann hefur setið í frá 11. febrúar 2023 kemur til frádráttar refsingunni.
Dóminn má lesa hér.