fbpx
Sunnudagur 19.janúar 2025
Fréttir

Farandnuddari dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir kynferðisbrot í heimahúsi

Jakob Snævar Ólafsson
Föstudaginn 14. júlí 2023 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Héraðsdómur Reykjaness hefur birt dóm yfir manni að nafni Ioseb Gogiashvili. Héraðssaksóknari hafði ákært hann fyrir að hafa í starfi sínu sem nuddari að kvöldi 5. janúar og aðfararnótt 6. janúar 2021 brotið kynferðislega á konu inni á heimili hennar. Var honum gefið að sök að hafa kysst bak konunnar, nuddað hana á milli rasskinna, nuddað kynfæri hennar utanklæða og sett fingur í leggöng hennar þar sem hún lá léttklædd á nuddbekk og þannig beitt konuna ólögmætri nauðung með því að misnota sér það traust sem hún bar til hans.

Í skýrslutöku hjá lögreglu sagðist konan hafa verið að leita að aðila sem gæti nuddað í heimahúsi þar sem nuddstofur hafi verið lokaðar vegna Covid faraldursins. Hún og Gogiashvili hefðu sammælst um að hann kæmi heim til hennar klukkan tíu að kvöldi þann 5. janúar. Fór Gogiashvili inn á baðherbergi og skipti um föt en konan afklæddist öllu nema nærbuxum, lagðist ofan á nuddbekk sem Gogiashvili hafði meðferðis og breiddi yfir sig teppi.

Ákærði hafi tekið af henni teppið, eða fært það til, og nuddað á henni bakið. Konan sagði að nokkrum tíma liðnum hafi hún skynjað að teppið huldi einungis kálfa hennar og hluta af lærum og jafnframt skynjað að ákærði væri byrjaður að nudda á milli rasskinna hennar og „svona smá innanverð lærin“. Kveðst hún þá hafa fengið „risahnút í magann“. Hafi Gogiashvili í framhaldinu farið inn fyrir nærbuxur hennar en konan taldi að hann hefði stungið einum eða tveimur  puttum inn í leggöng  hennar og dregið þá út og inn.

Konan sagðist hafa óttast um öryggi sitt og dætra sinna sem sváfu í næsta herbergi. Telur hún aðfarirnar hafa staðið yfir í fimm til tíu mínútur. Hún segist ekki hafa beðið Gogiashvili um að hætta en loks spurt hann hvað klukkan væri og þá hafi hann hætt og beðist afsökunar. Í framhaldinu stóð konan upp, vafði um sig teppi en Gogiashvili gengið frá nuddbekknum og yfirgefið íbúðina.

Hafði ekki dvalar- eða atvinnuleyfi á Íslandi

Við skýrslutöku hjá lögreglu, í júní 2021, sagðist Gogiashvili hafa dvalið hér á landi síðan 2019 en hvorki verið með dvalar- né atvinnuleyfi. Hann sagðist vera nuddari að atvinnu og sérhæfa sig í svokölluðu Thai jóga og sænskri aðferð sem hann blandaði saman. Gogiashvili sagðist auglýsa sig sem farandnuddara á Facebook, þar sem hann hefði sjálfur yfir engri nuddaðstöðu að ráða, og byði upp á þjónustu fyrir alla aldurshópa.

Hann sagðist hafa tjáð konunni að hann byði upp á nuddaðferð sem hann nefndi „private touch“. Á meðan nuddinu stóð hafi konan byrjað að hristast og hann spurt hvort allt væri í lagi en hún þá svarað að Gogiashvili væri sá besti. Hann hafi þá haldið nuddinu áfram og einbeint sér að punktum mjög neðarlega við rasskinnar sem væri mjög mikilvægt. Konan hafi verið allsnakin en hulin teppi og óskað eindregið eftir því að stunda kynlíf með honum sem hann hafi hafnað og lagt áherslu á að hann væri þarna kominn eingöngu til að veita fagmannlegt nudd. Konan hafi þá reiðst mjög. Hann neitaði því að hafa snert kynfæri hennar.

Viðurkenndi ofbeldið í Facebook samskiptum

Í dómnum kemur fram að konan hafi leitað til fjölskyldu-og áfallamiðstöðvarinnar Lausnin. Meðferðaraðili hjá miðstöðinni sagði í greinargerð að konan glími við kvíða og ótta við að Gogiashvili komi heim til hennar eða sé fyrir utan heimili hennar. Einnig liggi fyrir vottorð sálfræðings sem segir konuna hafa verið trúverðuga og samkvæma sjálfri sér í viðtölum. Viðbrögð og einkenni sem konan hafi greint frá í viðtölum séu í samræmi við lýsingar annarra sem hafi lýst svipuðu ofbeldi og einnig í samræmi við rannsóknir á aðilum sem greint hafi frá kynferðisofbeldi.

Í málinu voru lögð fram textaskilaboð af Facebook á milli konunnar og Gogiashvili. Í þeim samskiptum viðurkenndi hann að hafa snert kynfæri hennar. Það væri svo notalegt og konan svo falleg. Hann baðst afsökunar en fullyrti að hann væri fagmannlegur nuddari. Hann neitaði því ekki í samkiptunum að hafa farið með fingur sína inn í leggöng konunnar og baðst afsökunar á því.

Fyrir dómi neitaði Gogiashvili sök. Hann sagðist hafa þrjátíu ára reynslu sem nuddari og meðal annars nota langar hreyfingar sem hann kallar „langa áttan“ og „löng fljúgandi hreyfing“. Hann hefði ekki snert kynfæri konunnar eða gert annað sem hann var ákærður fyrir. Gogiashvili sagðist hafa átt lyf til að koma í veg fyrir kynferðislega örvun en ekki tekið þau í þetta skipti. Hann fullyrti enn að konan hefði sýnt sér kynferðislegan áhuga. Afsökunarbeiðni hans og játning í Facebook samskiptum þeirra hafi verið tilkomin vegna þess að hann hefði ekki tekið konuna alvarlega og haft áhuga á að hitta hana aftur.

Flúði land

Í niðurstöðu dómsins segir að framburður konunnar hafi frá upphafi verið stöðugur hjá lögreglu og fyrir dómi og sé trúverðugur. Ekki verði horft framhjá samskiptum konunnar og Gogiashvili á Facebook þar sem ekki verði betur séð en að hann viðurkenni að hafa nuddað kynfæri hennar og stungið fingri í leggöng. Skýringar hans á þessum samskiptum séu ótrúverðugar. Taka verði einnig með í reikninginn framburði meðferðaraðilans og sálfræðingsins.

Sekt Gogiashvili sé hafin yfir skynsamlegan vafa og hann því sakfelldur. Hann hafi gróflega misnotað aðstöðu sína og því sé hæfilegt að dæma hann til fangelsisvistar í tvö ár.

Málið dróst nokkuð þar sem Gogiashvili flúði land og gefin var út alþjóðleg handtökuskipun á hendur honum. Hann var loks handtekinn í ónenfdu landi í nóvember 2022 og framseldur til Íslands í desember sama ár. Gogiashvili hefur setið í gæsluharðvaldi frá 17. mars 2023 og dregst sá tími frá dómnum.

Einkaréttarkröfu konunnar, upp á eina milljón króna, á hendur Gogiashvili var vísað frá dómi þar sem hún þótti vanreifuð.

Dóminn má lesa hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Úkraínsku hermennirnir voru í þjálfun í Frakklandi – Skyndilega hurfu þeir

Úkraínsku hermennirnir voru í þjálfun í Frakklandi – Skyndilega hurfu þeir
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ofsótti lesbískt par linnulítið í hálft ár – Brjálaðist vegna beiðni um að þrífa upp hundaskít

Ofsótti lesbískt par linnulítið í hálft ár – Brjálaðist vegna beiðni um að þrífa upp hundaskít
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ragnheiður skoðaði íbúð á föstudegi en á mánudegi var búið að selja hana – „Og hverjum haldið þið?“

Ragnheiður skoðaði íbúð á föstudegi en á mánudegi var búið að selja hana – „Og hverjum haldið þið?“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Álftnesingur réðst á lögreglumann í Valsheimilinu

Álftnesingur réðst á lögreglumann í Valsheimilinu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tvíburasynir Rannveigar og Birgis Þórs fæddust eftir 25 vikna meðgöngu – „Við þurfum að vera til staðar fyrir litlu hetjurnar“

Tvíburasynir Rannveigar og Birgis Þórs fæddust eftir 25 vikna meðgöngu – „Við þurfum að vera til staðar fyrir litlu hetjurnar“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigmundur Davíð – „Gervigreindin að minnsta kosti var með það á hreinu og skilaði því svari að Ísland hefði slitið viðræðunum“

Sigmundur Davíð – „Gervigreindin að minnsta kosti var með það á hreinu og skilaði því svari að Ísland hefði slitið viðræðunum“