Samkvæmt tilkynningu frá stjórnarráðinu hefur Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, skipað Ástráð Haraldsson í embætti ríkissáttasemjara til fimm ára frá og og með 18. júlí 2023.
Sex umsóknir um embættið bárust þegar það var auglýst laust til umsóknar. Var skipuð ráðgefandi hæfnisnefnd sem samanstóð af fulltrúum ráðherra og samtaka aðila vinnumarkaðarins. Niðurstaðan var að tveir umsækjendur voru taldir mjög vel hæfir til að gegna embættinu og af þeim var Ástráður talinn uppfylla best þær kröfur sem gerðar eru til þess sem gegnir embætti ríkissáttasemjara.
Ástráður lauk embættisprófi í lögfræði við Háskóla Íslands árið 1990. Hann öðlaðist héraðsdómslögmannsréttindi árið 1991 og var skipaður hæstaréttarlögmaður árið 1995. Hann starfaði sem lögmaður í á þriðja áratug áður en hann tók við embætti héraðsdómara í janúar árið 2018.
Þá hefur hann verið prófdómari í vinnurétti auk þess sem hann hefur sinnt stundakennslu í vinnurétti. Ástráður starfaði í hlutastarfi sem aðstoðarsáttasemjari við embætti ríkissáttasemjara frá árinu 2019 þar til hann tók við embætti dómara við Félagsdóm árið 2022.
Hann var settur ríkissáttasemjari í deilu Samtaka atvinnulífsins og Eflingar í febrúar og mars árið 2023.
Þótti Ástráður almennt standa sig vel við að sætta deiluaðila en hann var upphaflega settur í deiluna þar sem forysta Eflingar lýsti yfir vantrausti á þáverandi ríkissáttasemjara, Aðalstein Leifsson.
Í tilkynningunni segir einnig að Ástráður hafi verið settur ríkissáttasemjari frá 1. júní 2023.