Tómas Logi Hallgrímsson, 37 ára félagi í björgunarsveitinni Sigurvon í Sandgerði, segist hafa búist við að fá yfir sig skítkast frá fólki þegar hann rýmdi svæðið við gosstöðvarnar á mánudag vegna lífshættulegra aðstæðna vegna gasmengunar.
„Ég var kallaður vitlaus og heimskur.
Ég var sakaður um mannréttindabrot.
Ég var kallaður krakkaskítur.
Ég var kallaður helvítis fáviti.
Ég er aumingi sem situr inn í bíl og étur nammi í stað þess að bjarga fólki“
voru á meðal ummæla sem fólk hreytti í hann.
Tómas Logi sinnti svipuðu starfi síðastliðin jól þegar Reykjanesbraut var lokað ítrekað vegna veðurs og segir hann að honum hafi verið til þess tíma aftur og að hann hafi ekki átt von á mis slæmum viðbrögðum fólks í hans garð við lokanir vega vegna óveðurs og ófærðar.
Sjá einnig: Tómas Logi bjargaði mannslífi fyrir jól – „Sá félagi minn allt í einu hönd“
Tómas Logi segir magnað að hann komi sér í þessar aðstæður aftur og aftur, en tekur þó fram að um 98% fólks sé þakklát og skilji leiðbeiningar hans. Hann mætti aftur á vaktina á þriðjudag:
„Núna sit ég í bíl Björgunarsveitarinnar Sigurvonar í Sandgerði ásamt félaga mínum við afleggjarann upp að Keili frá Reykjanesbraut og sinni lokunarpósti vegna eldgosins við Litla-Hrút.“
Björgunarsveitin Sigurvon er ein þeirra björgunarsveita sem hafa staðið vaktina frá því eldgos hófst og segir sveitin að nóg hafi verið að gera síðustu daga, og gosvöktum sinnt öll kvöld.
„Þegar þetta er skrifað eru tveir félagar á heimleið eftir þriðja kvöldið í röð. Við viljum ítreka við alla sem hyggjast leggja leið sína að gosinu að fylgja merkrum gönguleiðum og búa sig vel. Svæðið er skráfþurrt og nauðsinlegt að hafa nóg af vatni og muna að það kólnar hratt þegar líður á kvöldið. Munum svo að koma vel fram við sjálfboðaliðanna okkar.“
DV minnir þó á enn og aftur að gossvöðvarnar eru lokaðar til kl. 9 á laugardag 15. júlí hið minnsta.
Sjá einnig: Gosstöðvunum lokað fram á laugardag