Fyrr í dag greindi DV frá því að eigendur Íslensku hamborgarafabrikkunnar hefðu lokað veitingastaðnum í Kringlunni eftir að ábendingar bárust um að fjöldi gesta hefðu orðið veikir eftir að hafa borðað þar nýlega.
Sjá einnig: Loka Fabrikkunni í Kringlunni í dag til að ganga úr skugga um hvort að gestir hafi orðið fyrir matareitrun
„Við tökum frásögnum mjög alvarlega og viljum með þessu tryggja að það sé ekkert upp á okkur að klaga,“ segir María Rún Hafliðadóttir, forstjóri Gleðipinna í samtali við DV, en félagið á og rekur Íslensku Hamborgarafabrikkuna.
Í fréttinni var greint frá að allt að 18 gestir hefðu veikst, þegar hafa um þrettán tilkynningar borist heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur vegna mögulegrar matareitrunar á veitingastaðnum. Óskar Ísfeld Sigurðsson, deildarstjóri matvælaeftirlits hjá eftirlitinu, segir í samtali við Mbl.is að vinnutilgáta eftirlitsins sé sú að ef til vill sé um tilfelli nóróveiru að ræða, en eftirlitið hefur þegar farið á staðinn í Kringlunni.
Í samtali við DV sagði María Rún að útibúinu hefði verið lokað í dag og að verið væri að þrífa staðinn hátt og lágt og sótthreinsa. Unnið hafi verið í nánu samstarfi við Heilbrigðiseftirlitið, vörur hafi verið sendar í greiningu og unnið sé með birgjum í að skoða hvort og þá hvað hafi farið úrskeiðis.
Segir Óskar við Mbl.is að staðurinn muni ekki opna aftur án samþykkis heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og rannsókn á málinu standi yfir.„Okkar vinnutilgáta er sú, í samráði við þá sem koma að rannsókninni, að þetta gæti verið nóróveira,“ segir Óskar, en hana er ekki hægt að greina í matvælum hérlendis, aðeins í fólki.
„Á meðan erum við bara búin að henda öllu út hér. Svo er náttúrulega rosa erfitt ef þetta er eitthvað annað, ef þetta er eitthvað sem berst manna á milli, maður veit ekki, það er bara rosalega erfitt að segja,“ segir María í samtali við Mbl.is.