Síðdegis í dag birtist myndband á Facebook sem sýnir hvar flutningabifreið á vegum Samskipa sýnir af sér töluverðan glannaskap við framúrakstur.
Myndbandinu deildi Arna Sjöfn Ævarsdóttir, og merkti hún Samskip með færslunni til að vekja athygli á málinu. Arna bendir í færslu sinni, sem hún veitti DV góðfúslega leyfi til fjalla um, að svona hættir í umferðinni séu stórhættulegir og hafi téður bílstjóri stefnt vegfarendum í hættu.
Færslan er eftirfarandi, en slóð á hana má finna hér neðst í fréttinni.
„Í dag klukkan 16:10 var stór sendiferðabíll frá Samskip Ísland sem reyndi að taka fram úr mörgum bílum á þröngum vegi utan þéttbýlis þar sem skyggnið er hræðilegt. Þetta myndband er tekið á milli Borgarnes og Munaðarnes.
Við sáum hann fyrir aftan okkur reyna og reyna að færa sig um akrein til þess að taka fram úr. Sáum við bílinn koma á móti en skil ég ekki hvers vegna hann sá bílinn ekki þar sem hann var á margfalt stærri bíl. Vill taka það fram að við vorum öll að keyra á um 80 kmh á 90 vegi.
Vorkenni ég virkilega fólkinu sem kom keyrandi á móti manninum sem rétt náðu að skjóta sér frá og einnig þeim sem voru fyrir framan okkur á rauða bílnum sem var þrýst í það að sveigja sér næstum því útaf veginum til þess að bjarga sér frá stórskaða.
Email hefur verið sent á Samskip ásamt skilaboðum hér á Facebook.
Svona hættir í umferðinni eru stór hættulegir og setti hann mikið af fólki í hættu.Ég set þetta hér fyrir fólk til þess að deila þar sem þessi einstaklingur á aðeins skilið að missa réttindin sín eftir svona fávitaskap.“
DV leitaði viðbragða hjá Þórunni Ingu Ingjaldsdóttir, forstöðumanni markaðs- og viðskiptasviðs Samskipa, vegna málsins. Þórunn segir atvikið í engu samræmi við verklag Samskipa og að málið sé litið alvarlegum augum. Búið er að ræða við umræddan bílstjóra og er verið að skoða næstu skref.
„Við hörmum þetta atvik, þetta er engan vegin í samræmi við verklag Samskipa og lítum við þetta mjög alvarlegum augum. Búið er að ræða við bílstjórann og verið er að skoða næstu skref.“
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ruddalegur akstur vekur athygli. Fyrir rúmu ári síðan birtist myndband sem sýndi glæfralegan akstur sendibíls á vegum Eimskipa á Sæbrautinni. Sendibíllinn svínaði fyrir bifreið, keyrði yfir á aðrein upp Miklubraut og mátti litlu muna að árekstur hlytist af háttseminni. Var Eimskipum verulega brugðið vegna málsins og hlaut bílstjórinn tiltal.
Sjá einnig: Glannaakstur sendibíls Eimskips olli næstum því alvarlegu slysi – „Við hörmum atvikið“