Skjálftavirkni á Reykjanesskaga heldur áfram og samkvæmt Veðurstofunni voru 1.300 skjálftar á svæðinu frá miðnætti og þar til í hádeginu í dag. Frá upphafi hrinunnar, að kvöldi 4. júlí, hefur fjöldi skjálfta mælst um 4.700. Frá miðnætti til hádegis í dag hafa yfir sex skjálftar mælst yfir 3,5 að stærð. Í heildina hefur skjálftahrinan gefið eftir bæði hvað varðar fjölda og stærð skjálfta.
Í pistli Veðurstofunnar segir að gos á svæðinu milli Fagradalsfjalls og Keilis sé líklegt innan daga eða vikna, en ekki öruggt. Orðrétt segir í pistli Veðurstofunnar:
„Staðsetning jarðskjálftanna dreifist á norðaustur-suðvesturlínu milli Fagradalsfjalls og Keilis, að mestu leyti rétt norðan við fjallið Litla Hrút. Nýjustu jarðskorpumælingar (GPS) sýna verulegar hreyfingar sem benda til kvikuhreyfinga á svæðinu þar sem jarðskjálftarnir mælast. Líkleg skýring er kvikuinnskot í norðaustur-suðvesturátt á 2 til 4 km dýpi. Innskotið er nógu nálægt yfirborði til að eldgos geti orðið án frekari stigmögnunar í skjálftavirkni eða aflögunarmælingum.
Miðað við núverandi mat eru tvær sviðsmyndir líklegastar. Jarðskjálftahrinan gæti minnkað jafnt og þétt án þess að kvika berist upp á yfirborðið. Að öðrum kosti gæti kvikan haldið áfram í átt að yfirborðinu, sem myndi leiða til eldgoss á þeim stað sem skjálftahrinan er nú. Ekki er hægt að útiloka að kvika berist upp á yfirborðið hvar sem er á svæðinu milli Fagradalsfjalls og Keilis. Af þessu tvennu virðist líklegra að eldgos verði innan daga eða vikna.“