Fjölskylda á ferðalagi um Norðurland lagði á Selhnjúk ofan Dalvíkur seinni partinn í dag, lenti í sjálfheldu og óskaði eftir aðstoð við að komast niður um klukkan 16:30 í dag. Fjölskyldufaðirinn hafði þá komist á topp Selhnjúks, en móðir og barn voru aðeins neðar í fjallinu og treystu sér ekki lengra.
Björgunarsveitir frá Dalvík og Siglufirði voru kallaðar út til aðstoðar eins og kemur fram í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg. Þegar fólkið hafði verið staðsett um fimmleytið, var haldið á fjallið þeim til aðstoðar. Tungumálaörðugleikar flæktu aðgerðina aðeins, sem og slæmt fjarskiptasamband. Um sexleytið í kvöld var björgunarfólk komið að öllum fjölskyldumeðlimum og haldið af stað niður. Niðurleiðin gekk áfallalaust fyrir sig og ekki reyndist þörf á að tryggja fólkið í línum á leið niður. Allir komnir heilu og höldnu af fjalli rétt fyrir klukkan átta í kvöld og aðgerð lokið.
Meðfylgjandi eru myndir af vettvangi í dag.