Samkvæmt tilkynningu frá Almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra hefur Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum lýst yfir óvissustigi Almannavarna vegna jarðskjálftahrinu á Reykjanesskaga. Jarðskjálftahrinan hófst að kvöldi til 4.júlí og stendur enn yfir.
Íbúar á suðvesturhorninu eru hvattir til þess að huga að lausa- og innanstokksmunum sem geta fallið við jarðskjálfta og huga sérstaklega að því að ekki geti fallið lausamunir á fólk í svefni. Veðurstofa Íslands hefur einnig vakið athygli á því að grjóthrun og skriður geti farið af stað í brattlendi og því er gott að sýna aðgát við brattar hlíðar.
Óvissustig almannavarna þýðir að aukið eftirlit er haft með atburðarás sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar verði ógnað. Að lýsa yfir óvissustigi er hluti af verkferlum í skipulagi Almannavarna til að tryggja formleg samskipti og upplýsingagjöf á milli viðbragðsaðila. Á óvissustigi fara viðbragðsaðilar og stofnanir yfir áætlanir sínar og viðbúnað.
Nánar er hægt að kynna sér varnir og viðbúnað hér á heimasíðu Almannavarma.
Einnig er mikilvægt að kynna sér viðbrögð við jarðskjálfta á heimasíðu Almannavarna.