fbpx
Miðvikudagur 17.júlí 2024
Fréttir

Samhjálp tekur upp skráningu á kaffistofuna – „Nú erum við að stíga þetta skref sem var löngu tímabært“

Ragna Gestsdóttir
Mánudaginn 3. júlí 2023 16:30

Mynd: Facebook-síða Kaffistofunnar

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kaffistofa Samhjálpar hefur nú tekið upp skráningu fyrir þá sem kaffistofuna sækja, en þar má fá morgunmat og heitan hádegismat alla daga. Hingað til hefur verið nóg að mæta til að fá að borða, en nú er skráning tekin í gildi og er hægt að skrá sig á heimasíðu Samhjálpar eða við komuna.  

„Þetta er eins og er hjá öllum öðrum hjálparstofnunum, við höfum bara ekki gert þetta fyrr,“ segir Edda Jónsdóttir framkvæmdastjóri Samhjálpar í samtali við DV.  

Edda Jónsdóttir framkvæmdastjóri Samhjálpar

„Það er bara gerð krafa í dag um að við skilum ákveðnum gögnum og gerum grein fyrir tölum. Við höfum hingað til verið með svona sirka höfðatölu, en þurfum að halda betur utan um fjöldann. Þetta er bara nákvæmlega eins og aðrir hafa gert, við erum eiginlega bara þremur árum á eftir öðrum hjálparstofnunum og í raun bara óeðlilegt að við höfum ekki gert þetta. Við höfum stefnt að þessari skráningu í nokkurn tíma, en það bara tekur tíma að búa til kerfi og allt svoleiðis. Nú erum við að stíga þetta skref sem var löngu tímabært.“  

Edda segir að slík skráning sé einnig hagkvæmni í rekstrinum til að sjá sveiflur í mætingu og bendir sem dæmi á að mikil aukning hafi orðið á kaffistofunni í júlí í fyrra. Og enn er aukning. 

„Við vorum með 2,5 stöðugildi á kaffistofunni í lok árs 2021, í dag eru þau fimm, þar sem það hefur orðið svo mikil aukning hjá okkur. Sjálfboðaliðum hefur einnig fjölgað, við erum með tíu fasta sjálfboðaliða sem ganga vaktir og fjölmargir  sem leggja hönd á plóg, annars myndi þetta ekki ganga upp. Skráning sýnir okkur líka hverjir eru að nýta þjónustuna okkar. Við erum málsvarar ákveðinna hópa og viljum geta tekið utan um þá hópa með því að gera grein fyrir stöðunni gagnvart stjórnvöldum. Þetta er bara sömu upplýsingar og Hjálpræðisherinn tekur saman, en þeir og Samhjálp eru einu aðilarnir sem gefum heitar máltíðir. Við höfum unnið dálítið með Hjálpræðishernum og samræmt okkur þannig að við vinnum á sömu línu. Þau eru komin lengra í þessari skráningu en við.“  

Tilkynning um skráningu hangir uppi á kaffistofunni

Styrktaraðilar halda Kaffistofunni opinni  

Hjá Samhjálp er styrktarmannakerfi í gangi, sem virkar þannig að hægt er að kaupa máltíð á heimasíðu Samhjálpar, ýmist fyrir ákveðna upphæð eða með valfrjálsri upphæð. 

„Ef við værum ekki með þetta kerfi þá værum við búin að þurfa að loka kaffistofunni. Framlag opinberra aðila dugar ekki til, þannig að framlög einstaklinga og fyrirtækja hjálpa til að halda dyrunum opnum,“ segir Edda. Hún tekur fram að á sumrin gefi færri Samhjálp mat, á veturna sé mikið um að mötuneyti gefi þeim mat.  

Aðspurð um hvað margir mætti dag hvern nefnir Edda að að jafnaði séu um 8000 máltíðir í hverjum mánuði, „við erum að gefa um 100 þúsund á ári.“  

Kaffistofa Samhjálpar
Mynd: Arnþór Birkisson

Leitt að geta ekki boðið fólki að vera allan opnunartímann

Edda segir skráninguna ekki hafa komið gestum Kaffistofunnar á óvart. „Ég held að fólk sé bara vant þessu annars staðar frá, þetta er bara eðlilegur hluti af þróuninni. Við vorum með skráningu allan mars, þannig að fólk fékk nasaþefinn af þessu þá og er ekkert að kippa sér upp við þetta. Þetta er líka bara til að setja ákveðinn ramma utan um að þeir nýti sér þjónustuna sem þurfi á henni að halda og til að setja heilbrigð mörk.“  

Samhjálp leigir húsnæði Kaffistofunnar á almennum markaði og er það löngu búið að sprengja utan af sér.  

„Suma daga koma vel á fjórða hundrað manns til okkar á þessum fjórum tímum sem er opið og við erum með sæti fyrir 60 manns í einu með herkjum. Það eru einhverjir sem sitja lengur, en sá hópur er ekki stór eins og staðan er núna. Á veturna, eins og síðastliðinn vetur þegar var mjög kalt þá er það áskorun að vera ekki með stærra húsnæði til að taka á móti fólki. Í upphafi var húsnæðið líka hugsað sem félagsmiðstöð, en húsnæðið er löngu sprungið utan af þessum fjölda,“  segir Edda. 

Hægt er að styrkja Samhjálp með máltíð hér. 

Þeir sem þurfa á þjónustu Kaffistofunnar að halda geta skráð sig hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Stóra fíkniefnamálið: Skuldaði höfuðpaurnum tíu milljónir og fór í örlagaríka ferð með skemmtiferðaskipi

Stóra fíkniefnamálið: Skuldaði höfuðpaurnum tíu milljónir og fór í örlagaríka ferð með skemmtiferðaskipi
Fréttir
Í gær

J.D. Vance verður varaforsetaefni Donald Trump

J.D. Vance verður varaforsetaefni Donald Trump