Norska ríkissútvarpið, NRK, sagði frá því fyrr í dag að Bjørnar Moxnes, þingmaður og formaður Rauða flokksins (Rødt) hafi verið gripinn fyrir þjófnað á Gardermoen flugvelli í Osló.
Rauði flokkurinn hefur 8 sæti á norska stórþinginu og er lengst til vinstri af þeim flokkum sem eiga þar sæti. Stefna flokksins er að koma á stéttlausu þjóðfélagi í Noregi og að sósíalismi komi alfarið í stað kapítalisma með m.a. þjóðnýtingu stærstu fyrirtækja landsins. Flokkurinn leggur þó áherslu á að þetta sé gert með lýðræðislegum hætti og án alls ofbeldis.
Bjørnar Moxnes tjáði NRK að hann hefði fengið sekt sem hljóðar upp á 3000 norskar krónur (rúmar 38.000 íslenskar krónur) fyrir þjófnað á sólgleraugum úr verslun á Gardermoen flugvelli fyrir nákvæmlega tveimur vikum síðan. Lögreglan staðfesti við NRK að Moxnes hefði fengið sekt fyrir það sem skilgreint er sem smáþjófnaður.
Hann segist hafa gengið út úr versluninni með gleraugun, án þess að greiða fyrir þau, af misgáningi. Samkvæmt stefnu frá lögreglunni, sem NRK hefur undir höndum, er Moxnes sektaður fyrir að brjóta ákvæði hegningarlaga og taka eign annarra ófrjálsri hendi í því skyni að skapa sjálfum sér eða öðrum óheiðarlegan ávinning. Þetta segir NRK þýða að lögreglan telji að Moxnes hafi tekið sólgleraugun viljandi.
Moxnes játar að hafa farið með gleraugun út úr versluninni án þess að greiða fyrir þau en segir það hafa verið algjört óviljaverk og hann skammist sín. Hann hafi einfaldlega gleymt því að hann væri enn með gleraugun á sér. Hann segir að öryggisvörður hafi komið að lokum til hans og beðið um að fá gleraugun afhent. Þá hafi hann gert sér grein fyrir mistökunum og ákveðið að taka afleiðingunum fremur en að reyna að sleppa á grunni einhverja afsakana.
Gleraugun kostuðu 1.199 norskar krónur (rúmar 15.300 íslenskar krónur) og er Moxnes sagður hafa greitt fyrir þau auk þess að greiða sektina.
NRK leitaði viðbragða kollega Moxnes á norska Stórþinginu. Þingmaður hins hægri sinnaða Framfaraflokks, Sivert Bjørnstad, sagði að stjórnmálamenn úr Rauða flokknum ættu að greiða fyrir vörur í búðum eins og annað fólk. Flokksfélagi hans, Helge André Njåstad, var aðeins mildari og sagðist trúa því að um óviljaverk hefði verið að ræða.
Formenn stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og dómsmálanefndar Stórþingsins, Peter Christian Frølich úr Hægri flokknum og Per-Willy Amundsen úr Framfaraflokknum, vildu ekki tjá sig um málið.