DV fjallaði í gær um mynd af fálkaorðu sem Vilhjálmur Svan Jóhannsson setti inn á Facebook-hópinn Grams og gæðadót til sölu og óskast með orðunum „Kolaportinu allar helgar.“ Vilhjálmur sagði ekki berum orðum í færslunni að orðan væri til sölu en það virtist óneitanlega erfitt að draga ekki þá ályktun að hún væri til sölu.
Vilhjálmur hefur nú svarað skilaboðum fréttamanns DV sem spurði hann m.a. hvaðan hann fékk orðuna og á hvaða upphæð hann hafði hugsað sér að selja hana. Vilhjálmur segir að myndin hafi einungis verið notuð sem auglýsing til að laða að viðskiptavini en hann hafi ekki verið að auglýsa orðuna til sölu. Hann segir að þótt hann setji slíka mynd inn á hóp eins og Grams og gæðadót til sölu og óskast þýði það ekki endilega að viðkomandi hlutur sé til sölu.
Vilhjálmur bendir réttilega á að nóg sé til af fálkaorðum en eins og var t.d. rifjað upp í frétt DV í gær kom upp mál árið 2007 þar sem kanadískur safnari auglýsti fálkaorðu til sölu en í fréttum á þeim tíma kom fram að safnarinn hefði níu fálkaorður í sinni vörslu. Síðan 2007 hafa komið upp fleiri mál þar sem fálkaorður hafa verið auglýstar til sölu.