fbpx
Þriðjudagur 28.janúar 2025
Fréttir

Einbýlishús selt undan öryrkja á klink – Allt sem þú þarft að vita um málið – „Þrjár fasteignir seldar á 10 milljónir eða minna“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Föstudaginn 30. júní 2023 15:48

Mynd samsett úr skjáskotum úr fréttatíma RÚV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mál ungs öryrkja í Keflavík vakti gífurlega athygli og reiði í samfélaginu í vikunni eftir að hann steig fram hjá RÚV og greindi frá því að hann stæði nú uppi allslaus eftir sýslumaður seldi einbýlishús hans á uppboði fyrir litlar þrjár milljónir. Nú stæði fjölskyldan frammi fyrir því að vera borin út af heimili sínu, allt sökum þess að þau hafi ekki áttað sig á því  hvernig fasteignakerfið á Íslandi virkar.

Framtíðarheimilið horfið og tapið nemur tugum milljóna

Jakub keypti húsið með það fyrir augum að þar væri framtíðarheimili hans og fjölskyldunnar tryggt. Hann staðgreiddi húsið fyrir bætur sem honum voru dæmdar eftir alvarleg læknamistök sem áttu sér stað þegar hann var aðeins 13 ára gamall. Húsið er í dag metið á 57 milljónir, en nauðungarsala fór fram sökum vanskila á fasteignagjöldum, tryggingum og vatnsgjöldum. Heildarskuldir námu um 2,5 milljónum. Þessar skuldir fóru í innheimtu, svo fjárnám og að lokum var boðað til nauðungarsölu. Jakub greindi frá því að hann hafi ekki haft hugmynd um að hann þyrfti að standa skil á áðurnefndum gjöldum. Hann hafi staðgreitt húsið og talið að þar með væri engin þörf á að greiða reikninga. Hann hafi heldur ekki gert sér grein fyrir nauðungarsöluferlinu og var því enginn á hans vegum viðstaddur uppboðið þegar húsið var slegið nýjum eigendum á litlar þrjár milljónir.

Vakti uppboðsverðið töluverða reiði og margar spurningar, en í lögum um nauðungarsölu segir að ef sýslumaður meti framkomin tilboð í eign svo lág að það sé í engu samræmi við markaðsvirði þá geti sýslumaður tekið ákvörðun um að uppboðið verði haldið aftur. Þetta hafi sýslumaðurinn á Suðurnesjum, Ásdís Ármannsdóttir, ekki gert en hún neitaði að rökstyðja það athafnaleysi sitt þegar fréttamenn RÚV leituðu svara.

Áttu landsmenn margir varla orð yfir þessu óréttlæti. Að ungur öryrki væri sviptur tug milljóna eign sinni sökum minniháttar skuldar, og að útgerðarmaður – sem ekki hefur verið nafngreindur í fréttum – hafi þarna grætt tugi milljóna á kostnað Jakubs og fjölskyldu.

Þroskahjálp gaf út yfirlýsingu í kjölfar fréttarinnar og sögðust samtökin hafa verulegar áhyggjur af framkvæmdinni í málinu sem væri í engu samræmi við skuldbindingar stjórnvalda samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Um væri að ræða fatlaðan mann sem sökum fötlunar sinnar ætti að njóta viðeigandi aðlögunar og viðeigandi og fullnægjandi stuðnings og leiðbeininga af hálfu hlutaðeigandi stjórnvalda. Beindu samtökin fyrirspurn til Ásdísar sýslumanns þar sem meðal annars var spurt hvort að embættið hefði leiðbeint og stutt Jakub, af hverju  húsið hefði verið selt svona ódýrt, hvort Jakub hefði fengið allar upplýsingar sem hann þurfti og hvort upplýsingarnar hafi verið þannig að hann gæti skilið þær.

Formaður Öryrkjabandalags Íslands, Þuríður Harpa Sigurðardóttir, sagðist óttast að mál Jakubs væri ekki einsdæmi. Ljóst væri að alvarleg mistök hafi átt sér stað og þau þyrfti að leiðrétta. Hafur ÖBÍ skorað á sýslumannsembættið á Suðurnesjum og sveitarfélagið Reykjanesbæ að taka málið til endurskoðunar og nýr eigandi hvattur til að hverfa frá kaupunum.

Fíknisjúkdómur breyti engu um óréttlætið

Fram kom í frétt DV að hús Jakubs hefði ítrekað verið vettvangur fíkniefnasölu, líkt og fram hafi komið í dómi Héraðsdóms Reykjaness sem féll í ágúst á síðasta ári þar sem Jakub var dæmdur í skilorðsbundið fangelsi fyrir fíkniefnasölu, peningaþvætti og brot á vopnalögum. Eins var þar rakið að fyrirhugað uppboð á eigninni hafi ítrekað verið auglýst síðustu ár, fyrst árið 2019.  Vakti sú yfirferð enn meiri reiði og fordæmdu margir fréttina með vísan til þess að hvorki fíknisjúkdómur né auglýsingar í héraðsmiðli gæti réttlætt það að ungur maður væri sviptur eign sinni fyrir það eitt að átta sig ekki á aðstæðum.

Bróðir Jakubs birti í kjölfarið færslu á Facebook, sem Vísir greindir svo frá,  þar sem honum sagðist ofboðið yfir umræðunni um bróður sinn. Fráleitt væri að halda því fram að það væri Jakubi einum að kenna hvernig fór. Jakub hefði veikst eftir alvarleg læknamistök fyrir áratug síðan og glímt við þunglyndi og síðar fíknisjúkdóm. Jakub hefði farið frá því að vera heilsuhraustur drengur sem spilaði fótbolta á degi hverjum yfir í að þurfa að notast við hjólastól út lífið, allt út af því að læknir hafi ekki ekki skoðað hann nægilega vel þegar hann leitaði sér aðstoðar. Vegna þessa hafi Jakub fengið bætur sem hann keypti téð hús fyrir, en líklega myndu flestir frekar velja heilsuna. Raunin sé að það sé galið hvernig kerfið á Íslandi virki og að Reykjanesbær hafi leyft þessu að gerast.

Þær vendingar urðu svo í gær að ákvörðun var tekin, af nýjum eigendum hússins, að útburði yrði frestað fram að verslunarmannahelgi, en annars hefðu Jakub og fjölskylda verið borin út í dag. Formaður bæjarráðs í Reykjanesbæ, Friðjón Einarsson, sagði í samtali við RÚV að bærinn ætli að útvega fjölskyldunni húsnæði og unnið sé að lausn svo fólkið geti verið áfram í húsinu. Biðlað hafi verið til nýrra eigenda að endurskoða ákvörðun sína og hvort þeir væru til í að selja húsið aftur.

Guðrún Hafsteinsdóttir, nýsleginn dómsmálaráðherra, sagði í kvöldfréttum í gær að Reykjanesbær bæri mikla ábyrgð í málinu sem væri harmleikur. Sýslumaður hafi gert allt sem í hennar valdi stóð. Bent var á að húsið hafi í þrígang verið boðið upp á nauðugnaruppboði en í tvö fyrri skiptin hafi verið fallið frá sölunni. Guðrún sagðist sjálf ekki geta gripið til neinna aðgerða vegna málsins, en það hafi þó verið tekið til skoðunar í dómsmálaráðuneytinu sem hafi komist að þeirri niðurstöðu að sýslumaður hafi engin mistök gert heldur leiðbeint Jakub af öllum mætti til að koma í veg fyrir þau málalok sem svo urðu raunin. Annað mál sé svo hvort að endurskoða þurfi lög um nauðugnarsölur.

Guðrún tók fram að lögum samkvæmt hafi Jakub haft sex vikur eftir að uppboði fór fram til að greiða skuld sína, og hefði salan þá fallið niður.

Þrjár eignir seldar á uppboði síðustu þrjú ár á undir 10 milljónum

DV leitaði svara hjá Ásdísi sýslumanni,  en hún sagðist ekki geta tjáð sig um einstök mál en að hún gæti veitt almennar upplýsingar um framkvæmd nauðungarsalna. Slíkar sölur væru auglýstar samkvæmt lögum, fyrsta fyrirtaka væri tilkynnt gerðarþola með ábyrgðarbréfi og auglýst í Lögbirtingablaði. Byrjun uppboðs sé svo tilkynnt með almennu bréfi og framhald uppboðs, sem sé loka sala, sé tilkynnt með ábyrgðarbréfi. Þar að auki séu nauðungarsölur auglýstar á vef sýslumanna og í dagblöðum.

Jakub hafi því fengið tilkynningar með útbornu ábyrgðarbréfi. En Ásdís gat ekki upplýst um það hver hafi tekið við bréfunum. Ekki gat Ásdís heldur upplýst um það hversu margir mættu á uppboðið eða hversu mörg tilboð bárust í eignina. Hún gat þó svarað því til að engin tengsl séu á milli nýrra eigenda eignarinnar og hennar sjálfrar, starfsmanna hennar, og engin slík tengsl heldur milli lögmanns eigenda og embættisins.

Aðspurð um hversu oft það hafi gerst á síðustu þremur árum að eign hafi verið seld á uppboði fyrir minna en 10 milljónir svaraði Ásdís:

„Síðustu þrjú ár hafa þrjár fasteignir verið seldar á 10 milljónir eða minna, þar af ein lóð.“

Dómstólar hafa tekið fyrir kröfur gerðarþola nauðungarsalna sem telja að þar sem eign þeirra hafi verið seld á uppboði undir markaðsvirði hafi nýr eigandi auðgast á með óréttmætum hætti. Dómarar hafa í slíkum tilvikum vísað til þess að samkvæmt lögum geti gerðarþolar krafist þess að eign þeirra verði seld á almennum markaði, en að slík krafa þurfi að berast innan tiltekinna tímamarka og eins hefur verið vísað til þess að lög um nauðungarsölu geri ekki ráð fyrir að sá sem missi eign sína á nauðungauppboði geti krafið þann sem kaupir hana á uppboðinu um mismun á metnu markaðsvirði og uppboðsverðinu. Lögin geri heldur ekki ráð fyrir því að uppboðsþoli geti krafið uppboðskaupanda um mismun þeirrar fjárhæðar sem hvílir á eigninni og markaðsverði hennar, þótt það sé hærra en skuldirnar. Í raun sé það byggt inn í lögin að einhver kunni að eignast verðmæti á nauðungaruppboði fyrir lægra verð en nemur markaðsvirði verðmætisins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Kleini auglýsir lúxusgullkúlublómapotta keypta á AliBaba- Álagningin er yfirgengileg en frí heimsending fylgir

Kleini auglýsir lúxusgullkúlublómapotta keypta á AliBaba- Álagningin er yfirgengileg en frí heimsending fylgir
Fréttir
Í gær

Hvað eiga Danir að gera við yfirgangi Trumps? – „Grænland er orðið mikilvægt fyrir öryggishagsmuni Bandaríkjanna“

Hvað eiga Danir að gera við yfirgangi Trumps? – „Grænland er orðið mikilvægt fyrir öryggishagsmuni Bandaríkjanna“
Fréttir
Í gær

Áslaug Arna selur framboðsvarning – Hjartastuðtæki og Heimlich-leiðbeiningar fylgja ekki með

Áslaug Arna selur framboðsvarning – Hjartastuðtæki og Heimlich-leiðbeiningar fylgja ekki með
Fréttir
Í gær

Snorri fagnar mótframboði Áslaugar Örnu – „Hlakka til að starfa sem formaður með hana mér við hlið sem varaformann“

Snorri fagnar mótframboði Áslaugar Örnu – „Hlakka til að starfa sem formaður með hana mér við hlið sem varaformann“
Fréttir
Í gær

Hleypti óvart af hólknum í miðju hlaðvarpsviðtali – „Hver skaut hvern?“

Hleypti óvart af hólknum í miðju hlaðvarpsviðtali – „Hver skaut hvern?“