CNN hefur rætt við reyndan skipstjóra, Daniel Kriz, sem býður m.a. upp á skipstjórnarþjónustu fyrir eigendur snekkja. Nýlega var hann að sigla skútu, sem nýtt er í siglingakeppnum, yfir Atlantshafið. Þegar hann var staddur á Gíbraltarsundi, milli Spánar og Marokkó, varð hann var við að tveir háhyrningar voru komnir undir bátinn.
Þetta var ekki í fyrsta sinn sem Kriz upplifir þetta. Árið 2020 varð hann fyrir því að hópur háhyrninga synti ítrekað utan í bát hans og raunar umkringdi hann. Báturinn var óvirkur eftir aðfarir háhyrninganna.
Þegar kemur að nýrra atvikinu segir Kriz að háhyrningarnir tveir sem syntu undir bátinn hafi byrjað að naga stýrið í sundur en stærri hópur hafi synt í kringum bátinn og virst fylgjast með.
Eftir skemmdirnar sem háhyrningarnir unnu á stýrinu var illmögulegt að stýra bátnum. Kriz tókst hins vegar að sigla honum til hafnar. Hann segir seinni árásina hafa tekið styttri tíma og virst skipulagðari af hálfu háhyrninganna.
Daniel Kriz er ekki sá eini sem hefur lent í slíkum árásum af hálfu háhyrninga. Á síðustu þremur árum hafa orðið um 500 atvik milli báta og háhyrninga á Gíbraltarsundi en fyrst fór að bera á þeim 2020.
Í frétt CNN kemur fram að samkvæmt rannsóknum vísindamanna hafi sömu rúmlega 15 háhyrningarnir átt þátt í þeim flestum. Þeir hafa sökt þremur bátum og gert fjölda annarra óvirka.
Tvær kenningar eru uppi um hvers vegna háhyrningar hafa verið svo aðgangsharðir við báta á þessum slóðum. Báta- og skipaumferð á sundinu er ein sú mesta í heimi og háhyrningar nálgast aðeins lítinn hluta þeirra en 1 af hverjum 5 skiptum endar með skemmdum.
Háhyrningarnir eru aðgangsharðari við báta á Gíbraltarsundi á sumrin þar sem bláuggatúnfiskur, ein helsta bráð þeirra, syndir þá inn á sundið. Í lok sumars synda háhyrningarnir á svæðinu að norðurhluta Spánar eins og túnfiskurinn.
Háhyrningar geta synt á um 48 kílómetra hraða á klukkustund og geta orðið allt 11 tonn að þyngd og tæpir 9,7 metrar að lengd. Fjöldi þeirra sem heldur til á Gíbraltarsundi er ekki meiri en 40 og er þessi undirstofn skilgreindur í útrýmingarhættu. Vísindamenn telja að háhyrningarnir séu að leika sér eða að þeir hafi upplifað eitthvað alvarlegt af völdum báts og séu að reyna að koma í veg fyrir að það endurtaki sig
Meðalstærð bátanna sem hafa orðið fyrir árásum háhyrninganna um 40 fet (12.2 metrar). Í sumum tilfellum koma þeir mjúklega við bátinn en í þeim verstu fara þeir undir bátinn og skemma stýrið.
Talið er mögulegt að háhyrningarnir hafi byrjað að ráðast að bátum á sundinu eftir að einn þeirra flæktist í veiðarfærum. Sumir vísindamenn telja hugsanlegt að eldri háhyrningarnir hafi kennt þeim yngri að gera stýri bátanna óvirk.
Tíðni árásanna hefur farið vaxandi en sumir vísindamenn telja að hegðun háhyrninganna bendi helst til að þeir séu að leika sér sem sjáist t.d. á því að þeir hafi ekki sýnt neina árásargirni gagnvart fólki í bátunum sem þeir sökktu. Þeir hafi einfaldlega synt burt um leið og bátarnir fóru að sökkva.
Sjófarendum á Gíbraltarsundi er ráðlagt að sýna engin viðbrögð ef háhyrningar veitast að þeim. Mælt er með því að slökkt sé á vélum eða segl dregin niður og ekki að æpa að háhyrningunum, allt þetta geri viðkomandi bát óáhugaverðari í augum dýranna.
Daniel Kriz minnir á að sjófarendur á Gíbraltarsundi séu á svæði háhyrninganna.