Lögreglan á Austurlandi segir í færslu á Facebook-síðu sinni að hún hafi síðustu ár í samstarfi við Náttúrustofu Austurlands vakið athygli á hættu sem sauðfé og til að mynda, fuglum og hreindýrum stafi af ökutækjum. Dýr sæki af ýmsum ástæðum í vegi og vegaxlir. Ágæta yfirferð þess megi finna á vef Náttúrustofu Austurlands.
Segir í færslunni að helstu tölur lögreglu sem kunni að gefa vísbendingar um stöðu þessara mála séu tilkynningar sem henni berast um að ekið hafi verið á búfé. Á tímabilinu 1. apríl til dagsins í dag árin 2019 til 2023 séu að meðaltali skráð sextán slík tilvik hjá embættinu. Árið 2019 og 2020 hafi þau verið yfir tuttugu talsins bæði árin, á umræddu tímabili, en séu tíu á þessu ári.
Telur Lögreglan á Austurlandi að þetta bendi til að ökumenn séu að verða varkárari en áður og ber þá von í brjósti að sú þróun haldi áfram.