Maður reyndi að stela áfengisflösku frá veitingastað í miðborginni í nótt en var stöðvaður af vegfarendum. Barðist hann um og var einn borgarinn slasaður eftir hann. Hyggst sá kæra þjófinn fyrir líkamsárás.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglu en þar segir einnig frá því að umferðaróhapp varð í Hafnarfirði þar sem tveir bílar skullu saman. Ökumaður í öðrum bílnum reyndist vera töluvert ölvaður. Hann var handtekinn og vistaður í fangaklefa. Ekki er vitað um meiðsl á fólki.
Í Kópavogi eða Hafnarfirði leitaði maður aðstoðar lögreglu og sagði hóp manna hafa veist að sér. Var maðurinn mjög ölvaður og með dálitla áverka. Var honum ekið á bráðamóttöku.
Tilkynnt var um hóp manna í verslun sem skemmdu eigur verslunarinnar. Hópurinn var farinn af vettvangi þegar að lögreglu bar að.
Í Mosfellsbæ gaf lögregla gaf ökumanni merki um að stöðva bíl sinn, sem að ökumaður gerði. Ökumaðurinn reyndi að komast undan lögreglu á hlaupum. Það tókst honum ekki en hann var hlaupinn uppi af lögreglumönnum. Ökumaðurinn var handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og fyrir að fylgja ekki fyrirmælum lögreglu.
Tilkynnt var um mann í annarlegu ástandi í hverfi 110. Sá neitaði meðal annars að gefa upp persónuupplýsingar og fylgja fyrirmælum lögreglu. Var hann vistaður í fangaklefa sökum ástands.