Málum um endurkröfurétt vátryggingarfélaga á hendur ökumönnum, sem ollu tjóni af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi, fækkaði verulega á síðasta ári. Endurkröfunefnd bárust 20 ný mál það ár, en til samanburðar voru málin 126 árið 2019, 130 árið 2020 og 175 árið 2021. Í tilkynningu frá endurkröfunefnd kemur fram að fækkunina megi tengja kórónuveirufaraldrinum, en einnig því að endurkröfur verða ekki nema að nokkrum hluta raktar til tjónsatvika, sem urðu á því ári er nefndin fékk mál til meðferðar. Oft hafa tjónin, sem nefndin fjallar um, orðið að minnsta kosti einu eða tveimur árum áður. Einnig eiga vátryggingafélög til að safna málum saman og senda nefndinni í einu lagi.
Umferðarlög mæla svo fyrir, að vátryggingafélag, sem greitt hefur bætur vegna tjóns af völdum ökutækja, eignist endurkröfurétt á hendur þeim, sem tjóni olli af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi. Fjármála- og efnahagsráðherra skipar þriggja manna nefnd til þess að kveða á um, hvort og þá að hversu miklu leyti beita skuli endurkröfum. Í nefndinni sitja lögfræðingarnir Helgi Jóhannesson sem formaður, Edda Andradóttir og Jóna Björk Guðnadóttir.
Ökumenn, sem voru 25 ára og yngri er þeir ollu tjóni, áttu hlut að um 21% mála á árinu 2022.
Hæsta krafan upp á 6,5 milljónir
Endurkröfur þessara 20 nýju krafna vegna ársins 2022 nema rúmlega 19,7 milljónum króna. Fjárhæð hæstu endurkröfu er 6,5 milljónir króna. Sjö endurkröfur eru að fjárhæð 500 þúsund krónur eða meira.
Nefndin telur rétt að árétta að undir fjárhæðina falla ekki ákvörðaðar viðbótarfjárhæðir í málum frá öðrum tíma, til dæmis vegna líkamstjóna sem ekki töldust uppgerð við fyrri málsmeðferð, segir að slíkar fjárhæðir geti verið verulegar.
Ástæður endurkröfu
Ölvun tjónvalds hefur jafnan verið algengasta ástæða endurkröfu. Þá hefur lyfjaáhrif tjónvalda sem ástæða endurkröfu, einkum vegna ávana- og fíkniefna, farið hlutfallslega fjölgandi á undanförnum árum. Á árinu 2022 voru ástæður endurkröfu oftast ölvun tjónvalds, í 13 tilvikum, eða í um 68% endurkrafnanna. Lyfjaáhrif var næst algengasta ástæða endurkröfu, átta tilvik eða í rúmum 42% málanna. Í tveimur málum voru ökumenn endurkrafðir vegna ökuréttindaleysis.