Auður Axelsdóttir, framkvæmdastjóri Hugarafls, heimsækir föður sinn reglulega á hjúkrunarheimili og eftir hverja heimsókn fær hún verk í hjartað. Samt er starfsfólkið á heimilinu vel meinandi og það er ekki undirmönnun. Ástæðan, að mati Auðar, er ákveðið viðhorf þar sem ekki eru uppfylltar þarfir íbúa fyrir tjáningu og samskipti.
Þetta kemur fram í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Auður skrifar:
„Ég sé vel meinandi starfsfólk hlúa að grunnþörfum heimilisfólks og alveg örugglega á sinn besta máta. Ég sakna þess hins vegar að áhersla sé lögð á að tala við heimilisfólk, ræða um daginn og veginn, mynda tengsl. Sýna heimilisfólki áhuga og örva þau. Maður er manns gaman og tengsl eru lífsnauðsynleg. Þegar við fæðumst byrjum við á því að leita tengsla um leið og við höfum náð andanum. Þau eru okkur jafnnauðsynleg alla ævina og það að draga andann. Við þróum okkur sem manneskjur í gegnum tengsl. Af hverju í ósköpunum ættum við ekki að hafa þörf fyrir þau á lokaskeiði lífs okkar? Ég sakna þess líka að ekki sé lögð áhersla á hreyfingu. Það er hægt henda blöðru á milli til dæmis, mjög létt og gaman um leið og eiga upplífgandi samtal um leið. Rifja upp gamla daga, gleðjast.“
Hún segir ennfremur:
„Nálgunin sem er notuð á umræddu hjúkrunarheimili er ekki vegna manneklu. Það er nálgunin sjálf sem er vandamálið. Ég hef unnið við aðhlynningu sjálf og ég veit að umhyggja, samtal, áhugi á lífssögunni, örvun, eru þættir sem skipta öllu máli. Og margir aðrir þættir sem byggjast á samskiptum, kærleika og virðingu fyrir því að hver einasta manneskja þarna inni skiptir máli og á sér sérstaka lífssögu. Þessir þættir eru ekki síður mikilvægir en matur og grunnaðhlynning. Þessir þættir eru í raun mikilvægari en maturinn.“
Hún segist sjálf ekki vilja enda á svona stað. Eitthvað sé mjög rangt við hvernig hjúkrunarheimili fyrir aldraða hafa verið byggð upp. Breyta þurfi nálguninni og leggja aukna áherslu á tjáskipti og samskipti við gamla fólkið.