fbpx
Sunnudagur 19.janúar 2025
Fréttir

Meinleg tæknimistök á fundi íbúaráðs afhjúpuðu baktjaldamakk starfsmanna Reykjavíkurborgar – „Ótrúleg vanvirðing við foreldra“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 19. júní 2023 14:26

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 12. júní síðastliðinn fór fram reglulegur fundur íbúaráðs Laugardals og var fundurinn haldinn í Laugardalslaug. Íbúaráðið er skipað kjörnum fulltrúum og fulltrúum íbúa. Á vefsíðu Reykjavíkurborgar segir um íbúaráð;

„Íbúaráð eru lifandi samstarfsvettvangur samráðs íbúa, bakhóps hverfisins, félagasamtaka, atvinnulífs og borgaryfirvalda. Íbúaráðin eru virkir þátttakendur í útfærslu á allri stefnumörkun hverfanna, ráðgefandi fyrir starfsemi þjónustumiðstöðva í hverfum og stuðla að eflingu félagsauðs í hverfum Reykjavíkurborgar.“

Ráðinu til fulltingis á fundinum, samkvæmt fundargerð, voru Kristinn Jakob Reimarsson, framkvæmdastjóri Norðurmiðstöðvar hjá Reykjavíkurborg, og Eiríkur Búi Halldórsson, verkefnastjóri verkefnisins Hverfið mitt hjá Reykjavíkurborg, sem ritaði fundargerðina. Eiríkur er einnig meðlimur í starfshóp um lýðræðisþátttöku og samráð við borgarbúa.

Fundurinn var sýndur beint á YouTube-síðu Reykjavíkurborgar en finnst ekki þar lengur. Tengill á hann er þó enn virkur og fundurinn því enn á YouTube, þegar þessi orð eru rituð. Eiríkur Búi varpaði á meðan á fundinum stóð mynd af tölvuskjá sínum á YouTube-síðu borgarinnar en hugði ekki að því að sjá mátti á skjánum Facebook-spjall hans og Guðnýjar Báru Jónsdóttur sem er verkefnastjóri hjá Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar. Íbúaráð í hverfum Reykjavíkurborgar njóta fulltingis skrifstofunnar.

Vildu ekki að íbúaráðið bókaði neitt um leikskólamál

Í spjallinu ræða Eiríkur og Guðný fyrirspurn um stöðu leikskólamála í hverfinu sem Íbúasamtök Laugardals lögðu fyrir fundinn. Í spjalli Eiríks og Guðnýjar virðast þau  ekkert sérstaklega áfjáð um að reynt verði að svara spurningum samtakanna á fundinum:

Guðný: „Þú segir við þau þetta er framlagning og þannig er það. Það er engin afgreiðsla eða ekkert.“

Eiríkur: „Leyfi þeim að ræða þetta fram og til baka-reddast vonandi. Geta í mesta lagi bókað.

Guðný: „Já vertu bara harður við þau. Enginn formaður né varaformaður þú ræður. Það er alltaf þannig að svar við fyrirspurn er bara lagt fram og ekkert framhald af því.“

Formaður ráðsins, Rannveig Ernudóttir, Pírötum, var ekki viðstödd en flokksfélagi hennar og varafulltrúi í ráðinu, Atli Stefán Yngvason, var valinn formaður í staðinn, samkvæmt fundargerð. Var það lagt til eftir að Guðný lét þessi orð falla.

Segir Eiríkur að Þorleifur, og á þá væntanlega við Þorleif Örn Gunnarsson fulltrúa Samfylkingarinnar í ráðinu sem var á fundinum, hafi séð til þess að svar Skóla- og frístundadeildar Norðurmiðstöðvar, sem var ritað fyrir fundinn, við fyrirspurninni væri lagt fram og svörin lesin upp.

Lét Eiríkur í kjölfarið þessi orð falla: „Kæfði þetta.“

Þegar líður á fundinn segir Eiríkur við Guðnýju að ráðið ætli að leggja fram spurningu um biðlista. Eiríkur spyr hvort það sé innan verksviðs ráðsins sem Guðný neitar og segir honum að segja ráðsmönnum að bóka frekar undir áðurnefndri fyrirspurn.

Eiríkur segir þá ráðsmeðlimi ekki vera sátta við að þetta sé ekki þeirra verksvið en hann hafi fengið ráðið til að reyna að fá kynningu á næsta fundi og umræður um leikskólamál í hverfinu sem Guðný segir að sé æðislegt. Þau halda spjallinu áfram:

Guðný: „Alltaf gott að þegja og gera ekki neitt. Láttu eins og þetta komi þér ekki við.“ 

Eiríkur: „Sagði bara don´t shoot the messenger and don´t hate the player.“ 

Guðný: Hahahah.“ 

Í fundargerðinni eru tenglar á fyrirspurnina og svar Norðurmiðstöðvar en ekkert var bókað í hana um afstöðu ráðsins til stöðu leikskólamála í hverfinu.

Hér að neðan má sjá nokkur skjáskot af spjalli þessara starfsmanna Reykjavíkurborgar.

Reiði meðal íbúa

Ónafngreindur einstaklingur birti samantekt af fundinum inni í Facebook-hópnum Leikskólamál í lamasessi og vakti hún mikla reiði. Meðal ummæla sem eru látin falla undir færslunni eru:

„Þetta er til hvílíkar skammar. Ótrúleg vanvirðing við foreldra og litlu börnin sem bíða heima hjá sér. Manni fallast bara hendur.“ 

„Spáið í vanvirðingunni. Þau HLÆJA yfir að grafa yfir þessa spurningu með pólitískum innantómri drullu!! Þetta fólk annað hvort á ekki börn eða þá þau voru leikskólabörn áður en Reykjavíkurborg EYÐILAGÐI borgina okkar fjölskyldufólks!!!“ 

„“Alltaf gott að þegja og gera ekki neitt“ & „láttu bara eins og þetta komi þér ekki við“ – þetta er gjörsamlega rotin stjórnsýsla & skýrir kannski af hverju við foreldrar erum enn í þessari óvissustöðu, þetta er ótrúlegt !!!“

„Almáttugur. Mikið ofboðslega eru þetta léleg vinnubrögð og mikil vanvirðing við mjög erfiða stöðu hjá mjög mörgum barnafjölskyldum í þessu hverfi. Hvað er hægt að gera? Flæða innboxin þeirra með kvörtunum? Skipuleggja önnur mótmæli?“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Úkraínsku hermennirnir voru í þjálfun í Frakklandi – Skyndilega hurfu þeir

Úkraínsku hermennirnir voru í þjálfun í Frakklandi – Skyndilega hurfu þeir
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ofsótti lesbískt par linnulítið í hálft ár – Brjálaðist vegna beiðni um að þrífa upp hundaskít

Ofsótti lesbískt par linnulítið í hálft ár – Brjálaðist vegna beiðni um að þrífa upp hundaskít
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ragnheiður skoðaði íbúð á föstudegi en á mánudegi var búið að selja hana – „Og hverjum haldið þið?“

Ragnheiður skoðaði íbúð á föstudegi en á mánudegi var búið að selja hana – „Og hverjum haldið þið?“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Álftnesingur réðst á lögreglumann í Valsheimilinu

Álftnesingur réðst á lögreglumann í Valsheimilinu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tvíburasynir Rannveigar og Birgis Þórs fæddust eftir 25 vikna meðgöngu – „Við þurfum að vera til staðar fyrir litlu hetjurnar“

Tvíburasynir Rannveigar og Birgis Þórs fæddust eftir 25 vikna meðgöngu – „Við þurfum að vera til staðar fyrir litlu hetjurnar“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigmundur Davíð – „Gervigreindin að minnsta kosti var með það á hreinu og skilaði því svari að Ísland hefði slitið viðræðunum“

Sigmundur Davíð – „Gervigreindin að minnsta kosti var með það á hreinu og skilaði því svari að Ísland hefði slitið viðræðunum“