fbpx
Föstudagur 14.mars 2025
Fréttir

Unglingarnir sitja eftir í verðbólgunni – „Þetta er hvorki boðlegt né sanngjarnt“

Ritstjórn DV
Föstudaginn 16. júní 2023 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ungmennaráð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða fordæmir ákvörðun umhverfis- og skipulagssviðs um laun ungmenna í Vinnuskóla Reykjavíkur. Þetta kemur fram í yfirlýsingu.

„Ungmennaráð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða fordæmir ákvörðun umhverfis- og skipulagssviðs varðandi launagjöf ungmenna í Vinnuskóla Reykjavíkur. Launin hafa ekki hækkað frá því í fyrra þrátt fyrir gífurlega verðbólgu. Unglingar í vinnuskólanum hafa nú unnið í fjóra daga án þess að vita launin sín, þetta er hvorki boðlegt né sanngjarnt. ungmennin hafa hvorki verkfallsrétt né veikindarétt. Viljum við kenna þessu unga fólki, sem er nú að kynnast vinnumarkaðinum að þetta sé eðlilegt? Erum við að senda þeim réttu skilaboðin með því að segja þeim of seint frá laununum sínum, borga þeim of lítið og skerða þau réttindum sínum

Ungmennaráðið krefst úrbóta fyrir hönd allra ungmenna“

Í ábendingu sem DV barst segir enn fremur að nemendur í 10. bekk í borginni hafi lent í því að hafa sótt um vinnu á tilteknu tímabili í sumar, sem þeim bauðst að velja um þegar opnað var fyrir umsóknir í vor. Aðeins viku áður en fyrsta tímabilið átti að hefjast hafi borgin svo tilkynnt að þetta val gæti ekki gengið eftir og þar með hafi sumarfrí fjölda fjölskyldna, sem gerðu ráð fyrir að unglingur yrði í vinnu á þeim tíma sem sótt var um, í uppnám enda sé það svo að foreldrar þurfi að skipuleggja sumarfrí sín gagnvart vinnuveitendum með margra mánaða fyrirvara.

„Ungmennin okkar í Reykjavík eiga betra skilið.“

Bókanir skráðar í trúnaðarbók

Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar tók á fundi sínum á miðvikudag fyrir kynningu á erindi sem barst borgarráði um viðbótar fjárheimild vegna launa nemenda Vinnuskóla Reykjavíkur. Samkvæmt fundargerð voru bókanir vegna málsins færðar í trúnaðarbók, en undir dagskrárliðnum tók Hreinn Ólafsson, fjármálastjóri, sæti á fundinum.

Eins var tekin fyrir fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokks um laun í vinnuskólanum, en munnleg svör voru sömuleiðis færð í trúnaðarbók og ekki tilgreind í fundargerð.

Borgarráð fundaði svo í gær þar sem bréf umhverfis- og skipulagssviðs frá því 11. júní var lagt fram, en þar var óskað eftir samþykkt á viðbótarfjárheimild vegna launakostnaðar nemenda vinnuskólans.

Lögðu borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks fram eftirfarandi bókun:

„Fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja miður að ekki hafi verið búið að ákveða laun nemenda í Vinnuskólanum áður en nemendur hófu þar störf nú í júní. Þá er það jafnframt óásættanlegt að launin haldist óbreytt milli ára og að um engar verðbætur eða kjarabætur sér að ræða.“

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins lagði líka fram bókun:

„Fulltrúi Flokks fólksins telur mikilvægt að hlúa að vinnuskólanum að öllu leyti. Vinnuskólinn þjónar mikilvægu hlutverki. Meginhlutverk Vinnuskólans er að veita nemendum úr efstu bekkjum grunnskóla uppbyggileg sumarstörf, fræðslu og tækifæri til að starfa við fjölbreytt verkefni sem flest snúa að garðyrkju og umhirðu í borginni. Laun í Vinnuskólanum þurfa að vera vísitölutengd enda ekki annað sanngjarnt. Nú ríkir blússandi verðbólga. Skoða átti launamál nemenda skólans áður en skólinn hófst en þau hafa ekki hækkað í samræmi við aðrar launahækkanir. Laun þessa hóps eiga að lúta almennum verð- og kjarabótum eins og laun annarra í samfélaginu.“

Áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna lagði eins fram bókun:

„Fyrir ári síðan bókuðum við Vinstri græn á þessa leið í borgarráði: „Það er ánægjulegt að laun nemenda í Vinnuskólanum séu að hækka aftur enda var það löngu orðið tímabært að leiðrétta kjör þeirra en það var fyrst gert í formannstíð Vinstri grænna í umhverfis- og heilbrigðisráði árið 2021. Framvegis þarf að gæta þess að tengja laun þeirra ákveðnum fasta launa svo þau fylgi öðrum hækkunum og launavísitölu og eins þarf að gera ráð fyrir þessum hækkunum við gerð fjárhagsáætlunar og úthlutunarramma. Eins mætti skoða leiðir til að afnema aldurstengingu launanna enda samræmist það ekki mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar að mismuna fólki vegna aldurs.“ Þessi bókun á enn við og brýnir borgarfulltrúi Vinstri grænna borgarráð í að ráðast í að koma þessu í ásættanlegan farveg með hagsmuni nemenda Vinnuskólans í fyrirrúmi. Nú er lag til að ráðast í betrumbætur á Vinnuskóla Reykjavíkur.“

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Umhverfis- og skipulagsráði höfðu áður lagt fram fyrirspurn vegna málsins á fundi nefndarinnar þann 7. júní.

„Ábendingar hafa borist um að laun vegna yfirstandandi sumars hafi enn ekki verið ákveðin hjá Vinnuskóla Reykjavíkur. Slíkt er óheppilegt enda eru aðeins tveir dagar í að nemendur komi til starfa hjá skólanum. Margir unglingar öðlast fyrstu reynslu sína af vinnumarkaði hjá Vinnuskólanum og æskilegt er að upplýsingar um kaup og kjör liggi fyrir þegar þeir skrá sig til starfa. Spurt er: Af hverju hafa umrædd laun ekki enn verið ákveðin? Hvenær verða þau ákveðin?“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

„Hvað ætlum við að gera öðruvísi núna svo við höldum ekki áfram að framleiða hættulega afbrotamenn á færibandi?“

„Hvað ætlum við að gera öðruvísi núna svo við höldum ekki áfram að framleiða hættulega afbrotamenn á færibandi?“
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Trausti sár út í Sönnu – „Mér fannst eins og þú tækir ekki mark á því sem ég væri að segja“

Trausti sár út í Sönnu – „Mér fannst eins og þú tækir ekki mark á því sem ég væri að segja“