fbpx
Föstudagur 17.janúar 2025
Fréttir

Ofbeldissveitir, studdar af Wagner-hópnum, vinna skelfileg voðaverk í Súdan

Jakob Snævar Ólafsson
Föstudaginn 16. júní 2023 19:00

Yevgeny Prigozhin er eigandi Wagner Group.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

CNN birtir í dag ítarlega frétt um voðaverk sem uppreisnarsveitin Rapid Support Forces (RSF) hefur gerst sek um í þeim bardögum sem staðið hafa yfir í Súdan að undanförnu milli sveitarinnar og súdanska hersins.

Hópurinn hefur einnig stundað víðtækar fjárkúganir sem felast í því að setja upp vegatálma og krefjast peninga af því fólki sem fer þar um. Neiti fólk að borga bíður þess ekkert nema ofbeldi eða hreinlega dauðinn.

Vitnisburðir, staðfest myndbönd á samfélagsmiðlum auk upplýsingar frá sérfræðingum benda eindregið til að RSF beiti almenna borgara ofbeldi, myrði þá og reki þá burt frá heimilum sínum. Síðastnefndu aðgerðirnar eru sagðar hugsaðar til að styrkja hernaðarlega stöðu RSF í átökunum við súdanska herinn. Hafa voðaverkin einkum verið framin í Darfur-héraði í vesturhluta landsins en héraðið var fyrr á þessari öld vettvangur mikilla voðaverka og þjóðernishreinsana.

Í fréttinni er sögð saga konu að nafni Fatima. Hún var tveggja barna móðir og langt gengin með það þriðja. Fatima var á flótta, ásamt börnunum, til nágrannaríkisins Chad. Þegar þau komu að síðasta vegatálma RSF, áður en landamærin blöstu við, var Fatima krafin um peninga. Hún sagðist ekki eiga neina eftir þar sem hún hefði neyðst til að láta RSF-liða á fyrri vegatálmum fá allt sitt fé. Þetta svar þótti ekki ásættanlegt og var Fatima þegar í stað skotin til bana.

Wagner hellir olíu á eldinn

Rússneska málaliðasveitin Wagner hefur farið mikinn í stríðsrekstri Rússlands í Úkraínu og orðið alræmd fyrir.

Samkvæmt upplýsingum frá starfsmönnum leyniþjónusta, vitnum og greiningu CNN á opinberum heimildum hefur Wagner-hópurinn útvegað RSF vopn. Heimildarmenn CNN segja þetta í samræmi við aðferðafræði Wagner, að skapa glundroða og taka svo völdin.

Rannsókn CNN leiddi í ljós að flutningur á vopnum á vegum Wagner til Súdan fór vaxandi í aðdraganda yfirstandandi átaka. Vopnin voru flutt frá herstöð Rússa í Sýrlandi, stöðvum Wagner í Líbýu og flugvelli í Mið-Afríkulýðveldinu.

Vopnin voru einnig flutt landleiðina til Súdan. Mikil tengsl hafa verið milli stjórnvalda í Súdan og í Rússlandi. Gegn því að útvega vopn fengu Rússar mikinn aðgang að gulliðnaði Súdan sem hjálpaði Rússum við að fjármagna innrásina í Úkraínu.

Wagner-hópurinn styður nú RSF en fyrir sveitinni fer hershöfðinginn Mohamed Hamdan Dagalo en hann var áður næstráðandi í herstjórn þeirri sem nú fer með völdin í Súdan en lenti upp á kant við hæstráðandann Abdul Fattah al-Burhan.

Samkvæmt vitnisburðum fjölmargra sem flúið hafa Darfur-hérað hafa liðsmenn RSF staðið fyrir morðum, eyðileggingu á samfélagslegum innviðum, þjófnuðum á heimilum og sjúkrahúsum og jafnvel hópnauðgunum. Í einu tilfelli var 24 konum og stúlkum rænt af hóteli í suðurhluta Darfur-héraðs. Þeim var öllum nauðgað ítrekað í þrjá daga. Sú elsta var 56 ára en sú yngsta 14 ára.

Á einu sjúkrahúsi stálu þeir öllu blóði úr blóðbankanum og helltu því niður. Líklega til að tryggja að íbúar héraðsins sem ekki eru af arabískum uppruna, eins og flestir liðsmenn RSF eru, gætu ekki fengið blóðgjafir, gerðist þess þörf.

Á gervihnattamyndum má sjá að þrjár borgir og 10 bæir og þorp, í Darfur-héraði, hafa að hluta til verið brenndar til grunna.

Ofbeldið er þó alls ekki bundið við Darfur-hérað. Tilkynnt hefur verið um nauðganir RSF-liða í Khartoum, höfuðborg Súdan, og þar hafa þeir einnig stundað gripdeildir og rekið fólk út af heimilum sínum. CNN hefur undir höndum staðfest myndband þar sjá má liðsmann RSF nauðga konu í húsagarði í borginni.

CNN hefur einnig undir höndum frásögn konu sem segir liðsmenn RSF hafa nauðgað tveimur dætrum hennar eftir að hún sagði að hún ætti ekkert gull eða peninga til að láta þá hafa.

RSF neitar alfarið öllum ásökunum um slík voðaverk og segir hina seku hafa klæðst eftirlíkingum af einkennisbúningi sveitarinnar. Talsmenn sveitarinnar segja að hún fari eftir alþjóðalögum og voðaverk af þessu tagi gangi gegn þeim gildum sem hún haldi í heiðri. Sömuleiðis neitar RSF því alfarið að hafa nokkur tengsl við Wagner-hópinn.

Almenningur í Súdan sem og margir aðilar á alþjóðavettvangi óttast hins vegar að aðstoð Wagner hafi styrkt og eflt RSF til muna.

RSF kemur Wagner mjög að gagni og óttast er að aðstoð Rússanna geti gert RSF kleift að skapa glundroða ekki bara í Súdan heldur nágrannaríkjunum líka. Wagner hópurinn á mikilla fjárhagslegra hagsmuna að gæta í Afríku en átökin í Súdan eru sögð hafa veitt hópnum aukin tækifæri til áhrifa í heimsálfunni.

Með hjálp Wagner er RSF sveitin orðin öflugri en nokkru sinni fyrr og getur stundað voðaverk sín nánast óhindrað.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Greindist með brjóstakrabbamein eftir fyrirbyggjandi brjóstnám og fær engar bætur

Greindist með brjóstakrabbamein eftir fyrirbyggjandi brjóstnám og fær engar bætur
Fréttir
Í gær

Ragnheiður skoðaði íbúð á föstudegi en á mánudegi var búið að selja hana – „Og hverjum haldið þið?“

Ragnheiður skoðaði íbúð á föstudegi en á mánudegi var búið að selja hana – „Og hverjum haldið þið?“
Fréttir
Í gær

Sigmundur Davíð – „Gervigreindin að minnsta kosti var með það á hreinu og skilaði því svari að Ísland hefði slitið viðræðunum“

Sigmundur Davíð – „Gervigreindin að minnsta kosti var með það á hreinu og skilaði því svari að Ísland hefði slitið viðræðunum“
Fréttir
Í gær

Vekur athygli á að glæraísing geti myndast á höfuðborgarsvæðinu síðdegis

Vekur athygli á að glæraísing geti myndast á höfuðborgarsvæðinu síðdegis