fbpx
Þriðjudagur 05.nóvember 2024
Fréttir

CIA sagði Úkraínumönnum að skemma ekki Nord Stream

Jakob Snævar Ólafsson
Miðvikudaginn 14. júní 2023 14:30

Gasið streymdi upp til yfirborðsins frá Nord Stream gasleiðslunni. Mynd:Danski flugherinn/EPA

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bandaríska leyniþjónustan (CIA) varaði Úkraínumenn við því að vinna skemmdarverk á Nord Stream gasleiðslunni í Eystrasalti. Það var gert eftir að leyniþjónustu hollenska hersins (MIVD) bárust upplýsingar frá ónefndum heimildarmanni í Úkraínu um að til stæði að vinna skemmdarverk á leiðslunni. MIVD kom þeim upplýsingum áleiðis til CIA sem í kjölfarið kom þeim skilaboðum til Úkraínu að hætta við slíkar fyrirætlanir.

Þetta hefur sameiginleg rannsókn hollenska ríkissjónvarpsins, NOS, og þýsku fjölmiðlanna Die Zeit og ARD leitt í ljós.

Til stóð að fremja skemmdarverkin á leiðslunni í júní á síðasta ári en hætt var við það eftir viðvaranir Bandaríkjamanna en þau voru hins vegar framin í september, sama ár. Á þeim tímapunkti hafði þó verið skrúfað fyrir gasstreymið í leiðslunni, sem flutti gas frá Rússlandi til Þýskalands, vegna efnahagsþvingana í garð Rússlands.

Skemmdarverkin ollu uppnámi og fordæmingum víða um heim en enn er ýmsum spurningum um þau ósvarað. Í fyrstu var Rússum kennt um en nú bendir margt til að Úkraínumenn beri ábyrgð á þeim en Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, hefur neitað því staðfastlega.

Í frétt NOS kemur fram að MIVD hafi neitað að tjá sig um málið og því hlutverk hennar í því enn nokkuð óljóst. Talið er líklegt að helstu ráðherrar í ríkisstjórn Hollands sem málið varðaði, Kajsa Ollongren varnarmálaráðherra, Wopke Hoekstra utanríkisráðherra og Mark Rutte forsætisráðherra hafi verið upplýstir um að til stæði að vinna skemmdarverk á Nord Stream leiðslunni og að Bandaríkjamenn hafi verið upplýstir um það.

Hollensk stjórnvöld hafa hins vegar ekki svarað spurningum um málið.

Ollongren varnarmálaráðherra hefur sagt að stuðningur Hollands við Úkraínu sé algjörlega óháður því hvort síðarnefnda ríkið hafi staðið fyrir skemmdarverkunum á leiðslunni.

Óþægilegur sannleikur

Áætlunin sem MIVD komst á snoðir um snerist um að lítill hópur kafara myndi kafa frá snekkju að leiðslunni og vinna skemmdarverkin. Sagt er að Zelensky forseti hafi ekki verið upplýstur um að þetta stæði til.

Til stóð að framfylgja áætluninni skömmu eftir að Atlantshafsbandalagið (NATO) lauk heræfingum í Eystrasalti, um miðjan júní, en eftir að þeim lauk komu Bandaríkjamenn boðum til Úkraínu um að hætta við skemmdarverkin.

Í frétt NOS kemur fram að óljóst sé hvort Úkraínumenn hafi hætt við skemmdarverkin í júní vegna viðvarana Bandaríkjamanna eða af öðrum ástæðum en samkvæmt heimildarmanni hafi CIA gert ráð fyrir að ekkert yrði af þeim.

Leiðslan var hins vegar skemmd svo illa í september að ekki er talið mögulegt að gera við hana. Skömmu eftir það hafði MIVD samband við CIA á ný með upplýsingar um skemmdarverkin, sem þá höfðu verið nýframin, á grundvelli upplýsinga frá úkraínskum heimildarmanni. Þetta staðfesti grun beggja stofnananna að Úkraínumenn hefðu staðið fyrir skemmdarverkunum.

Samkvæmt NOS er það þó enn ekki talið 100 prósent staðfest að Úkraínumenn beri ábyrgð á því að leiðslan hafi verið skemmd og er málið sagt enn til rannsóknar hjá MIVD.

Í nóvember á síðasta ári sagði Hoekstra utanríkisráðherra að sýna yrði sterk og sameinuð viðbrögð gagnvart þeim aðilum sem frömdu skemmdarverkin. Þau eru enn til rannsóknar hjá leyniþjónustum Danmerkur, Svíþjóðar og Þýskalands auk MIVD. Heimildarmenn NOS, sem búa yfir upplýsingum um aðvaranir CIA, telja langt að bíða niðurstaðna og líklegt sé að þær muni fela í sér óþægilegan sannleika.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Viðbragð Veðurstofunnar virkjað í nótt: Töldu að kvikuhlaup gæti verið að hefjast

Viðbragð Veðurstofunnar virkjað í nótt: Töldu að kvikuhlaup gæti verið að hefjast
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Gat ekki tjáð sig öðruvísi en með öskrum og svívirðingum

Gat ekki tjáð sig öðruvísi en með öskrum og svívirðingum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Netárás tók endurritun internetsins úr sambandi

Netárás tók endurritun internetsins úr sambandi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þessi töluðu minnst á Alþingi á kjörtímabilinu

Þessi töluðu minnst á Alþingi á kjörtímabilinu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Flýja til Íslands á meðan forsetakosningarnar standa yfir – „Það verður svo mikill hávaði og svo mikil ringulreið“

Flýja til Íslands á meðan forsetakosningarnar standa yfir – „Það verður svo mikill hávaði og svo mikil ringulreið“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ný könnun: Viðreisn nartar í hælana á Samfylkingunni – Píratar og VG í klandri

Ný könnun: Viðreisn nartar í hælana á Samfylkingunni – Píratar og VG í klandri