fbpx
Laugardagur 11.janúar 2025
Fréttir

Páll opnar sig um Símamálið – Segist frekar tapa málinu en börn hans beri vitni – „Ég vil samt ekki deyja nema þú fáir að vita sannleikann“

Ragna Gestsdóttir
Mánudaginn 12. júní 2023 09:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Páll Steingrímsson skipstjóri opnar sig á tilfinningaríkan hátt í viðtali í hlaðvarpsþættinum Á spjalli með Frosta Logasyni. Viðtalið birtist kl. 9 í dag á brotkast.is en þar ræðir Frosti við Pál og Evu Hauksdóttur, lögmann hans, um símamálið svokallaða.

Viðtalið er það fyrsta þar sem Páll ræðir málið opinberlega með þessum hætti. Hann hefur áður greint frá því að einstaklingur nátengdur honum hafi eitrað fyrir honum og í kjölfarið stolið síma hans og komið honum til starfsmanna RÚV.

Strax sterkur grunur um eitrun

„Það er þannig að kl. 6.30 um morguninn fer ég í fyrsta öndunarstoppið,“ segir Páll og segist hafa verið endurlífgaður. Það er alveg ljóst að ég anda ekki sjálfur og það er sama hvað þeir gera við mig að ég anda ekki sjálfur, segir Páll sem segir það hafa bjargað lífi sínu að hann var sendur til Reykjavíkur. Var börnum hans og tengdamóður sagt að kveðja hann áður. Segist hann ekki ætla að gagnrýna heilbrigðisyfirvöld fyrir að bjarga lífi sínu, en ýmis mistök voru gerð. Segist hann hafa reynt að segja frá að eitrað hafi verið fyrir honum og gögn sýni það. Bendir Eva á að heilbrigðisstarfsfólk hafi strax talið að um eitrunaráhrif hafi verið að ræða og finnst henni því skrýtið að það hafi ekki verið skoðað betur.

Fyrrum eiginkona játar sekt sína

Í viðtalinu segir Páll frá því er fyrrverandi eiginkona hans játar fyrir honum hennar aðkomu og sekt í málinu.

„Þá fer hún að segja mér það að hún hafi farið upp í Efstaleiti og beðið þá að hætta að skrifa upp úr símanum. Og ég segi „þeir eru ekkert að fara að gera það, þeir eru búnir að nota þig og þeir eru búnir að henda þér, það er bara þannig“. En hún vill ekki segja mér hver vísaði henni út úr húsi. „Talar bara um „hana“ sem hafi vísað henni út,“ segir Páll og á þá við hús RÚV í Efstaleiti.

Segist Páll hafa gengið niður í bæ, séð bíl eiginkonu sinnar við kirkjuna og hann enn verið þar þremur klukkustundum seinna. Hafi hann fundið eiginkonu sína í slæmu ástandi á túni við kirkjugarðinn. „Ég sný við til að tékka á henni. Þá finn ég hana á túninu sunnan við kirkjugarðinn. Bara í mjög slæmu ásigkomulagi. Og þá tek ég hana í fangið og svona reyni að hugga hana. Og þá spyr hún mig: „Geturðu fyrirgefið mér?“, og ég segi bara „Já, löngu búinn að því“,“ segir Páll og beygir af þegar hér er komið sögu.

„Þá segir hún „ég vil bara fá að deyja“. Og ég tala hana ofan af því. En svo segir hún: „en ég vil samt ekki deyja nema þú vitir sannleikann“. Og þá segir hún mér söguna. Hún segir mér hver tók við símanum og þá hugsa ég að þá sé sá hluti leystur, en ég hafði þó alltaf ákveðna hugmynd um að það væri þessi aðili,“ segir Páll og segist ekki vilja nafngreina þann einstakling, en um sé að ræða starfsmann RÚV.

„Ég hef verið mjög ákveðinn þegar kemur að rannsókninni. Ég get til dæmis nefnt sem dæmi að þegar ég mætti á lögreglustöðina í skýrslutöku þá rak ég fyrstu tvo rannsóknarlögreglumennina út. Annar er æskuvinur minn frá Raufarhöfn og ég sagði bara við hann: „Þú kemur ekki nálægt þessari rannsókn“ og þá kom annar. Ég bað hann líka að fara því hann tengdist öðrum brotaþola í málinu. Ég var þá spurður hvað ég vildi og ég sagði: „Ég vil bara fá manneskju hingað inn sem hefur engin tengsl við mig og ekki tengsl við Samherja, punktur. Ég vil bara fá rannsókn þar sem ég get treyst því hún sé ekki lituð af tengingu við fyrirtækið eða mig.“ Og ég geymdi þetta nafn alveg þar til í desember,“ segir Páll. Bendir hann á að það sé hlutverk lögreglunnar að rannsaka málið og hann hafi nefnt viðkomandi í lögregluskýrslu.

„Jú, jú, Eva fór fram á að ég myndi gera það. Svo kom það í ljós seinna meir að að aðrir fjölskyldumeðlimir vissu þetta,“ segir Páll og segir þá hafa fengið þá vitneskju frá fyrrum eiginkonu hans.

„Báðar dætur mínar bera fyrir sig 110 grein sakamálalaga. Þær munu ekki bera vitni. Það kemur bara ekki til greina. Þá bara tapa ég málinu, mér er sama. Þú setur ekki börn í þessar aðstæður,“ segir Páll og beygir aftur af í frásögninni.

Einkalíf okkar er í símanum

Eva ítrekar að það hafi enginn haldið því fram, hvorki Páll né hún, að blaðamenn séu grunaðir eða sakaðir um að hafa eitrað fyrir Páli. Það sem þeir séu grunaðir um sé að hafa afritað síma Páls, „allt draslið,“ segir Eva og á þá ekki aðeins við gögn tengd Samherja.

„Einkalífið okkar er í símanum og þetta að brjótast inn í síma bara til að leita að einhverju finnst mér svipað og ef einhver kæmi til þín með lykil að húsinu hans Bjarna Ben og segði þér: „Frosti ég veit að Bjarni verður ekki heima þessa helgi, farðu og athugaðu hvort þú finnir ekki eitthvað djúsí.“ Ekki ég veit að þetta er þarna og ég veit þú getur náð í upplýsingar sem eiga erindi við almenning heldur grömsum bara og athugum hvort við finnum eitthvað.“

Lögmaður stöðvar yfirheyrslu

Segir Páll sérstakt hvernig lögreglu hefur verið kennt um seinagang málsins þar sem fyrsta töf á málinu sé vegna atbeina Láru V. Júlíusdóttur lögmanns. „Í fyrstu yfirheyrslu hjá minni fyrrverandi eftir 2 mínútur og 40 sekúndur þá stoppar Lára yfirheyrsluna og ásetningurinn er einbeittur að stoppa yfirheyrsluna, hann er mjög einbeittur, ég er búinn að horfa á yfirheyrsluna og hún stoppar hana þegar mín fyrrverandi er að viðurkenna að hún hafi byrlað fyrir mér,“ segir Páll. Segir hann þær síðan hafa farið afsíðis í tæpar sjö mínútu, fyrrum eiginkona hans hafi snúið tilbaka hágrátandi og eftir það hafi ekki fengist orð upp úr henni.

Segir Eva rannsókn málsins ekki lokið og segist Páll ekki öfunda lögregluna á Akureyri.

Viðtalið má hlusta á í heild sinni á brotkast.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt