Maður sem fæddur er árið 1964 hefur setið í gæsluvarðhaldi í Fangelsinu Hólmsheiði síðan í mars vegna gruns um að hann hafi smyglað til landsins rúmlega þremur og hálfu kílói af kókaíni.
Málið verður þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjaness á morgun en í ákæru Héraðssaksóknara segir að maðurinn sé ákærður fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot „með því að hafa laugardaginn 18. mars 2023, staðið að innflutningi á samtals 3.563,72 g af kókaíni sem hafði 52-82% styrkleika, ætluðu til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni en fíkniefnin flutti ákærði til Íslands sem farþegi með flugi OG665 frá Madríd á Spáni til Keflavíkurflugvallar, falin í hjólastól sem ákærði kom með og notaðist við.“
Maðurinn er frá Dómíníska lýðveldinu. Héraðssaksóknari krefst þess að hann verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar, sem og að hann verði látinn sæta upptöku fíkniefnanna.