Fyrr í vikunni var greint frá því að heimilislaus karlmaður á sextugsaldri hefði svipt sig lífi í lok maí eftir að honum var ítrekað vísað frá gistiskýlindu á Lindargötu í Reykjavík. Ástæða þess að manninum var vísað frá er að Hafnarfjarðarbær neitaði að greiða gistinguna.
Sjá einnig: Svipti sig lífi eftir ítrekaðar frávísanir frá gistiskýlinu – Hafnarfjarðarbær neitaði að greiða gistinguna
Heimildin fjallaði ítarlega um málið og óskaði eftir svörum frá Hafnarfjarðarbæ vegna málsins, þau bárust þó ekki fyrr en eftir að fréttin hafði birst.
„Hafnarfjarðarbær harmar þær fregnir að einstaklingur sem leitaði í gistiskýlið sé látinn og vottar aðstandendum innilega samúð,“ segir í skriflegu svari Árdísar Ármannsdóttur, samskiptastjóra Hafnarfjarðarbæjar, til Heimildarinnar.
Segir í svarinu að Hafnarfjarðarbær sé með skýra verkferla varðandi einstaklinga sem leita til gistiskýla, eigi í góðu samstarfi við starfsfólk gistiskýlanna og leggi áherslu á að mæta þessum viðkvæma hópi einstaklinga með faglegri þjónustu, skilningi og ráðgjöf.
„Félagsráðgjafar hjá Hafnarfjarðarbæ hafa frumkvæði að því að reyna að ná sambandi við einstaklinga sem leita til gistiskýlanna til þess að bjóða félagslega ráðgjöf og stuðning hvort sem er fjárhagslegan eða varðandi búsetu til skemmri eða lengri tíma.“
Gistiskýlin ekki búsetuúrræði heldur neyðarúrræði
Í svarinu segir að mikilvægt sé að hafa í huga að gistiskýlin í Reykjavík eru ekki búsetuúrræði heldur neyðarúrræði fyrir einstaklinga sem eru heimilislausir.
„Hafnarfjarðarbær er með samning við Reykjavíkurborg um veitingu þjónustunnar og hefur nýleg hækkun á gistináttagjaldi hvorki haft áhrif á verklag sveitarfélagsins um þriggja daga gistiviðmið né á þjónustu til einstaklinga. Þjónusta gistiskýlanna er mjög mikilvæg fyrir þennan hóp einstaklinga, sem er oft á tíðum með flóknar og miklar þjónustuþarfir, en mikilvægt að hafa í huga að fleiri nætur í gistiskýli leysa ekki vanda þessa viðkvæma hóps og að sveitarfélag þarf að fá tækifæri til að grípa inn í og veita félagslega ráðgjöf og viðeigandi stuðning.“
Segir í svarinu að verklag sé þannig að eftir þriðju nóttina í gistiskýli sé einstaklingum með lögheimili í Hafnarfirði gert að leita sér aðstoðar hjá sínu sveitarfélagi áður en til áframhaldandi gistingar kemur. „Hefur slíkt vinnulag verið viðhaft hjá sveitarfélaginu um árabil í góðu samstarfi við starfsfólk gistiskýlanna. Engum einstaklingi hefur verið vísað frá án boða um önnur úrræði og ráðgjafar sveitarfélagsins boðnir og búnir til að finna leiðir og lausnir í öllum málum,“ segir að lokum.
Gistináttagjald í neyðarskýlum Reykjavíkurborgar hækkaði 1. maí úr 21 þúsund krónum í 46 þúsund krónur fyrir hverja nótt fyrir fólk með lögheimili utan Reykjavíkur.Lögheimilissveitarfélag greiðir gistináttagjaldið.
Fjallað er nánar um málið í Heimildinni.
Ef einstaklingar glíma við sjálfsvígshugsanir er bent á Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og netspjall Rauða krossins 1717.is. Opið allan sólarhringinn. Einnig má hafa samband við Píeta-samtökin sem veita ókeypis ráðgjöf í síma 552-2218, allan sólarhringinn. Netspjall Heilsuveru þar sem svarar hjúkrunarfræðingur er líka opið frá kl.8-22 alla daga. Fyrir þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi má fá stuðning í sorg hjá Sorgarmiðstöð og hjá Pieta samtökunum.