Kristinn Jens Sigurþórsson, fyrrverandi sóknarrpestur í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd, segir að Kristján Björnsson, vígslubiskup í Skálholti, hafi hátt í 20 sinnum sagt ósatt við skýrslutökur Héraðsdóm Suðurlands. Þetta kemur fram í aðsendri grein Kristins í Morgunblaðinu í dag.
Kristinn fer ekki náið út í málavöxtu en segir málið snerta hann sjálfan. Kristinn var sóknarprestur í Saurbæ er þjóðkirkjan ákvað að leggja prestakallið niður. Áður hafi Jens og fjölskylda hans liðið fyrir myglu í prestbústaðnum.
Kristinn segir marga hafa orðið að líða fyrir ófagmennsku vígslubiskupsins og segir hann setja sig mjög illa inn í þau mál sem honum eru falin til úrlausnar:
„Vegna plássleysis verður hér látið nægja að vísa til fjölda þeirra presta og starfsmanna, sem undirrituðum er kunnugt um að hafi þurft að líða fyrir ófagmennsku Kristjáns og óheilindi: Tveir samstarfsprestar hans í Vestmannaeyjum, þrír í Skálholti, tveir starfsmenn biskupsstofu, auk kollega á kirkjuþingi. Hafa m.a. verið lagðar fram formlegar kvartanir á hendur honum. Til viðbótar má nefna ómálefnalega og miskunnarlausa aðkomu vígslubiskupsins að málum fyrrverandi sóknarprests í Grensáskirkju, sem og að málum er snúa að undirrituðum og hefur að hluta verið stefnt fyrir dómstóla. Munu þau fá umfjöllun síðar, en að þessu sinni verður látið nægja að taka fram að við skýrslutöku fyrir Héraðsdómi Suðurlands hinn 18. mars 2021 sagði vígslubiskupinn ósatt hátt í 20 sinnum. Er um mjög alvarlegt brot að ræða. Einnig kom fram með mjög skýrum hætti við skýrslutökuna hve illa vígslubiskup setur sig inn í þau mál sem honum eru falin til úrlausnar, en honum hafði verið fengið umboð bæði biskups Íslands og kirkjuráðs til að fjalla um djúpstæð ágreiningsmál. Hefur framganga vígslubiskups haft alvarlegar afleiðingar fyrir undirritaðan. Eftirfarandi tilvitnun í skýrsluna undirstrikar hvernig Kristján Björnsson hefur rækt skyldur sínar, en hér er að finna hans eigin orð:
„Lögmaður undirritaðs: Hversu vel þekktir þú til ágreiningsefna á þessum tíma, þegar þú færð þetta umboð?
Kristján Björnsson: Ekki mjög mikið annað en bara það sem ég hafði frétt svona út undan mér og varðar ekki þetta tímabil.
Lögmaður undirritaðs: Þú hafðir sem sagt ekkert kynnt þér það neitt sérstaklega hvernig staðan á þessum málum var eða neitt slíkt?
Kristján Björnsson: Ja, við skulum bara … Nei ég hafði ekki kynnt mér það neitt. Ég hafði ekki farið neitt ofan í nein gögn um það …““
Kristinn segir ennfremur að Kristján hafi aðeins fengið 18 tilnefningar af þeim 67 sem tóku þátt í tilnefningu til vígslubiskupskjörs:
„Hefði við venjulegar kringumstæður mátt ætla að sitjandi biskup nyti mun meira trausts. Niðurstaðan verður enn einkennilegri þegar horft er til þess að hverjum og einum sem tilnefnir er heimilt að tilgreina allt að þrjú biskupsefni, en ætla má að tilnefningar hafi verið um 200 talsins. Vígslubiskup komst hins vegar ekki á blað hjá 49 manns eða u.þ.b. 73% þeirra sem tilnefndu. Verður að telja augljóst að þeir vilji alls ekki að Kristján Björnsson verði áfram í Skálholti. Er það eitt og sér athyglisvert og ætti að vekja kjörmenn stiftisins til rækilegrar umhugsunar.“