fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fréttir

Margir minnast Árna -„Mannlegur og marglaga, hann var líka einstakur “

Ragna Gestsdóttir
Miðvikudaginn 7. júní 2023 15:30

Árni Johnsen Mynd: Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árni Johnsen, fyrrverandi alþingismaður, lést í gær á Heilbrigðisstofnun Suðurlands í Vestmannaeyjum, 79 ára að aldri. Margir minnast Árna í dag á samfélagsmiðlum og rifja upp kynni sín af Árna. Ber flestum saman um að Árni hafi verið einstakur og eftirminnilegur maður.

Sjá einnig: Árni Johnsen er látinn

„Einu sinni, þegar ég var kornungur blaðamaður árið 1981, skrifaði ég stutta klausu í Helgar-Tímann um alveg nýútkominn reyfara eftir þá mjög vinsælan höfund, Robert Ludlum minnir mig. Lét ég þokkalega af bókinni. Helgar-Tíminn kom út á laugardögum og um tíuleytið þá um kvöldið er barið mjög hraustlega að dyrum heima hjá mér svo húsið nærri því skalf. Ég vissi ekki á hverju var von, en fyrir dyrum úti stóð þá enginn annar en Árni Johnsen, sem ég hafði þá oft séð niðrá Mogga sem vinnufélaga mömmu, en þekkti að öðru leyti ekki persónulega. Nú fyllti hann allt í einu nánast út í dyragættina hjá mér þetta laugardagskvöld. Og hann mátti ekki vera að því að heilsa, heldur vatt sér beint að efninu:
„Heyrðu, get ég fengið lánaða hjá þér bókina hans Ludlums? Mig langar að lesa hana.“ Þetta er mín Árna Johnsen saga. Ég votta ástvinum hans og aðstandendum alla samúð,“ segir Illugi Jökulsson rithöfundur og blaðamaður.

Illugi Jökulsson

„Árni Johnsen var mannlegur og marglaga. Hann var líka einstakur blessuð sé minning hans,“ segir tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens.

Bubbi Morthens
Mynd: Ernir

 

„Árni Johnsen frændi minn er farinn. Við deilum saman endalausri ást á okkar heimahögum, var vel til vina en ósammála um eitt og annað líka. Magnaður karakter, aðsópsmikill og allir höfðu sína skoðun á okkar manni. Ein hlið af Árna, sem var mín uppáhalds, en líklega ekki sú sem flestir minnast. Hann var nefnilega mikill húmoristi og það sem enn betra er, hafði lúmskan húmor fyrir sjálfum sér. Þessi litla saga sýnir það og sannar. Ég var að koma fram á einhverju herrakvöldinu suður með sjó fyrir nokkrum árum og Árni var bókaður líka. Ég átti soldið efni um frænda, sem féll oftast vel í kramið, en engin eins vel og þessi lína hér: „Árni er sá eini sem hefur farið í steininn og tekið grjótið með sér heim!?“
– Átti ég að þora að láta vaða með frænda í salnum og niðurstaðan var jú. Árni tók bakföll úr hlátri og salurinn hló með. Hann kom svo til mín eftir á skælbrosandi: „Þessi var sá besti sem ég hef heyrt um sjálfan mig frændi. Er þér sama þótt ég noti hann sjálfur?“ -„ Já auðvitað,“ sagði ég steinhissa og hugsaði um leið hversu magnað það væri. Far vel frændi. Hvíldu í friði. Grjótið góða tekur vaktina áfram,“ segir Sveinn Waage fyrirlesari Húmor virkar.
Sveinn Waage

Björgvin G. Sigurðsson fyrrum þingmaður Samfylkingarinnar minnist Árna með hlýhug. „Lífsins melódí Árna Johnsen er lokið. Árni var maður margra litbrigða og fór ekki alltaf troðnu slóðirnar. Sagði umbúðalaust það sem honum fannst, stórhuga og ákafur. Okkur Árna varð vel til vina og áttum mikil samskipti sem þingmenn í Suðurkjördæmi. Hann var góður og traustur vinur sem mér var ákaflega hlýtt til. Reyndist mér vel í hvívetna. Ógleymanlegur ferðafélagi um okkar víðfema kjördæmi. Árni var stór í sniðum og fyrirferðamikill. Vildi öllum vel. Sást ekki alltaf fyrir en gekk gott til og kom mörgu til leiðar. Blessuð sé minning Árna og af honum er sannarlega sjónarsviptir.“

Björgvin G. Sigurðsson

„Árni Johnsen hefur kvatt okkur. Þessa mynd tók ég í sjómannamessu fyrir mörgum árum. Finnst hún enn skemmtileg,“ segir ljósmyndarinn Kjartan Þorbjörnsson, Golli.

„Blessuð sé minning kærs vinar. Það var dýrmætt að kynnast Árni Johnsen og eignast hans vináttu, sú vinátta var kær og traust frá fyrstu kynnum. Innilegar samúðarkveðjur til elsku Dóru og fjölskyldu,“ segir Vilhjálmur Árnason, þingmaður og ritari Sjálfstæðisflokksins.

Vilhjálmur Árnason. Mynd: Anton Brink

Anton Helgi Jónsson, ljóðskáld og rithöfundur, minnist þess að Árni var fyrsti íslenski trúbadorinn sem hreif hann. „Hann sat á sviðinu í Tónabæ og söng Göllavísur eftir Ása í Bæ. Það hékk arnarkló niður úr gítarhálsinum hjá honum. Ég man ekki hvað mér fannst um það en Árni hreif mig. Samt fannst mér hann ekki vera góður söngvari. Ég hafði hrifist af sænskum og bandarískum vísnasöngvurum fyrir tólf ára aldur og Árni komst varla í samjöfnuð við þá en hann söng á íslensku og nennti að mæta í félagsmiðstöðina og taka lagið fyrir okkur krakkana. Árni var sérstakur, söng vísur um drykkjusvola en var stakur bindindismaður sjálfur, daðraði við utangarðsmenningu en var samt dyggur sjálfstæðismaður. Alveg væri ég til í að sjá hann aftur á sviðinu í einhverjum tónabæ á himnum syngjandi Göllavísur en hann mætti samt sleppa arnarklónni.“

Anton Helgi Jónsson

Björn Þorláksson blaðamaður rifjar upp að í ár tók hann viðtöl við Árna, viðtöl sem aldrei hafa birst eða munu birtast.

„Örfáum dögum áður en Fréttablaðið féll, tók ég tvö viðtöl við Árna Johnsen. Ég sagði ritstjóranum, að það væri ekki ólíklegt, að efnið sem stóð til að birta viku síðar, yrði síðasta fjölmiðlaviðtalið við Árna. Því ég skynjaði að mjög var af Árna dregið, þótt hann bæri sig allar götur vel. En viðtalið verður aldrei birt. Því við Árni ætluðum að ræða saman einu sinni enn fyrir birtingu. Þá hvarf fjölmiðlavettvangurinn úr höndum mér. Fyrst féll Fréttablaðið og nú er Árni dáinn. Ég er því eini Íslendingurinn sem veit hvað Árna langaði að tala um í síðasta viðtalinu sínu. Ég veit líka einn hvaða spurninga mér fannst áhugaverðast að spyrja þennan merka mann og ég veit svörin. En þau verða aldrei birt.

Árni var alla tíð sannur gagnvart blaðamennskunni í hjarta sínu. Eins og hann skildi blaðamennsku. Ég held ég brjóti engan trúnað við Árna þótt ég upplýsi um eitt sem við ræddum í viðtalinu sem aldrei verður birt. Árni sagðist hafa notið blaðamennskuáranna betur en stjórnmálanna. Árni var ekki einhliða persóna heldur marglaga. Gríðarlegur fjöldi vina hans segir ákveðna sögu og nær langt út fyrir flokkslínur. Ég sendi vinum og ættingjum Árna einlægar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Árna Johnsen.“

Björn Þorláksson

„Árið 1999 fengum við Smaladrengirnir nokkrar gestastjörnur til að taka þátt í upptökum okkar einu plötu (hingað til!). Þeirra á meðal var Árni Johnsen sem tók upp lagið sem hlekkjað er á hér að neðan. Það brást ekki að þegar erlendir aðilar hlustuðu á plötuna fannst þeim þetta mjög flottur og áhugaverður söngur og spurðu nánar um hvaða tónlistarmaður þetta væri. Það gerðu Íslendingar aldrei því allir þekktu röddina og höfðu ákveðið fyrirfram hvort Árni gæti sungið eða ekki. Þegar svo kom að útgáfutónleikum var Árni á kafi í hneysklismálinu fræga og margir voru hissa á því þegar ég bað hann um að koma og halda uppi smá fjöldasöng sem gestur á þessum tónleikum. Mörgum þótti eðlilegt að út af þessum mistökum hans væri honum alveg “kanselað” og einn maður meira að segja gekk út af tónleikunum, svo hneysklaður var hann. Ég er bara nokkuð stoltur af því að hafa látið það sem vind um eyru þjóta og beðið þennan greiðvikna mann um þennan greiða þrátt fyrir aðstæðurnar. Allir sem þekktu Árna ættuæ ekki að vera hissa á því að hann var að sjálfsögðu til í þetta þó að á honum stæðu öll spjót akkúrat þá vikuna. Blessuð sé minning Árna Johnsen,“ segir Bragi Þór Valsson, tónlistarmaður og tónlistarkennari.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Sara furðar sig á því að leikskólar haldi upp á bóndadaginn – „Komið út í svo mikið bull”

Sara furðar sig á því að leikskólar haldi upp á bóndadaginn – „Komið út í svo mikið bull”
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Ekkert lát á hreinsunum hjá Sýn – Nú er Steinn Kári farinn

Ekkert lát á hreinsunum hjá Sýn – Nú er Steinn Kári farinn
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Trump náðar Ross Ulbricht – Fékk lífstíðardóm árið 2015

Trump náðar Ross Ulbricht – Fékk lífstíðardóm árið 2015
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Búseti kærir borgina: Bygg­ing­ar­leyfi gefið út löngu áður en sérupp­drætt­ir voru lagðir fram

Búseti kærir borgina: Bygg­ing­ar­leyfi gefið út löngu áður en sérupp­drætt­ir voru lagðir fram
Fréttir
Í gær

Gróf pólitísk ritskoðun vekur reiði og vangaveltur um endalok tjáningarfrelsisins – „Eitthvað hræðilegt átti sér stað á meðan við vorum í burtu“

Gróf pólitísk ritskoðun vekur reiði og vangaveltur um endalok tjáningarfrelsisins – „Eitthvað hræðilegt átti sér stað á meðan við vorum í burtu“
Fréttir
Í gær

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“