Í Lögbirtingablaðinu fyrir helgi var manni á fimmtugsaldri birtur eins og hálfs árs fangelsisdómur. Segir að dómurinn sé birtur í blaðinu þar sem ekki hafi tekist að birta manninum dóminn.
Væntanlega finnst maðurinn ekki svo hægt sé að birta honum dóminn í eigin persónu.
Maðurinn var dæmdur 16. júní á síðasta ári, í Landsrétti, fyrir að beita eiginkonu sína og þrjú börn þeirra ofbeldi. Maðurinn var dæmdur í eins árs fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness en Landsréttur þyngdi dóminn um hálft ár.
Í dómnum segir að maðurinn hafi skapað stöðugt ógnarástand á heimilinu og að konan og börnin hafi getað átt von á ofbeldi af hans hálfu nánast hvenær sem var.
Meðal brota sem manninum er gefið að sök er að hóta syni sínum lífláti og rífa í föt hans og slá konu sína í höfuðið með handklæðaslá að syni sínum ásjáandi. Einnig er hann sagður hafa rifið í hár annars barns síns og sveiflað höfði þess til og frá.
Í öðru tilviki er hann sagður hafa slegið konu sína í höfuðið með ferðatösku og haft í kjölfarið þvaglát í þessa sömu tösku.
Þetta eru einungis hluti af þeim ofbeldisbrotum sem maðurinn var dæmdur fyrir.
Dóma Landsréttar og Héraðsdóms Reykjaness yfir manninum er hægt að lesa hér.