Mikill erill var hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt og voru skráð 120 mál frá kl. 17 í gær til 5 í morgun,
Meðal þeirra mála sem komu til kasta lögreglu var maður sem vísað var af hóteli í miðborginni vegna annarlegs ástands, en hann var undir miklum áhrifum áfengis og eiturlyfja.
Manni sem var til vandræða við eitt neyðarskýla Reykjavíkurborgar var vísað burt.
Óskað var eftir aðstoð lögreglu á Lækjartorgi þar sem maður svaf ölvunarsvefni. Maðurinn brást hinn versti við og réðst á lögreglumenn, var hann handtekinn og vistaður í fangageymslu.
Maður var handtekinn og færður á lögreglustöð eftir að hafa verið til vandræða við hús á Seltjarnarnensi. Eftir að rætt hafði verið við manninn á lögreglustöð var hann látinn laus þar sem hann lofaði að láta af þessari hegðun.
Ofurölvi maður var aðstoðaður eftir að hafa dottið og slasað sig lítillega í miðborginni. Sjúkralið gerði að sárum hans og var honum síðan ekið heim.
Eignarspjöll voru unnin á skólabyggingu í miðborginni og var útidyrahurð skemmd.
Krakkar kveiktu í rusli í undirgöngum í Hafnarfirði, ekki varð tjón af því.
Bíll valt á Heiðmerkurvegi og var einn fluttur með sjúkrabíl á slysadeild.
Maður var handtekinn í hverfi 113 vegna líkamsárásar og eignarspjalla. Var maðurinn í annarlegu ástandi og var vistaður í fangaklefa og bíður skýrslutöku þegar ástand hans lagast.