Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir að nauðga vinkonu sinni. Nauðgunin átti sér stað á heimili konunnar á meðan hún var sofandi uppi í rúmi ásamt kærasta sínum. Hinn dæmdi var besti vinur kærastans en hann hafði auk þess þekkt konuna sem hann braut á frá tólf ára aldri.
Nauðgunin átti sér stað að morgni dags, sunnudaginn 23. maí 2021. Kemur fram í dómnum að brotaþoli og kærasti hennar hafi hringt í hinn dæmda og boðið honum í samkvæmi til þeirra í Keflavík og borgað undir hann leigubíl úr Hafnarfirði. Þar hafi þrímenningarnir haft áfengi og fíkniefni, kannabis og kókaín, um hönd.
Um morgunin hafi brotaþoli og kærasti hennar haldið til svefnherbergis síns og farið að sofa. Nokkru síðar vaknaði svo brotaþoli upp við að verið var að hafa við hana samfarir. Hún hafi fyrst haldið að kærasti hennar væri að verki en orðið verulega brugðið þegar að hún sá hann sofandi fyrir framan sig í rúminu. Þá hafi hún áttað sig á því að vinur þeirra væri að verki og komist í mikið uppnám. Gerandinn forðaði sér í kjölfarið út af heimilinu.
Í dómnum kemur fram að DNA-rannsókn hafi sæði gerandans hafi fundist í leggöngum konunnar og því ljóst að hann hafi haft við hana samfarir.
Lögmaður gerandans, Ómar R. Valdimarsson, freistaði þess að verja skjólstæðing sinn með því að benda á að hann þjáðist af kynferðislegri svefnröskun (e. sexsomnia). Slík röskun lýsir sér þannig að fólk sýni af sér kynferðislega hegðun þegar það er í djúpsvefni og muni ekki eftir því þegar það vaknar.
Gerandinn undirgekkst meðal annars svefnrannsókn og voru niðurstöðurnar á þá leið að ætla mætti að hann væri haldinn slíkri röskun.
Yfirmatsmaður og þrír dómarar héraðsdóms féllust þó ekki á að röskunin gæti útskýrt hegðun mannsins. Samkvæmt gögnum úr síma hans væri afar ósennilegt að gerandinn gæti hafa sofið svo lengi að hann kæmist í djúpsvefn og að aðstæður í herbergi parsins hafi verið með þeim hætti að allt benti til þess að gerandinn hafi verið með rænu þegar hann framdi ódæðið.
Var gerandinn því dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir nauðgun, eins og áður segir, auk þess sem honum var gert að greiða þolandanum tvær milljónir króna í miskabætur. Þá var honum gert að greiða lögmanni sínum, Ómari R. Valdimarssyni, rúmar 3,3 milljónir í málsvarnarlaun og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Karls Georgs Sigurbjörnssonar lögmanns, rúmlega 900 þúsund krónur. Að auki þurfti hann að greiða annan sakarkostnað sem hljóðaði upp á tæpar 3 milljónir króna.