Ómar R. Valdimarsson, lögmaður manns sem dæmdur var fyrir að nauðga vinkonu sinni í Héraðsdómi Reykjaness og DV fjallaði um fyrr í dag, segir að dómnum verði áfrýjað til Landsréttar. „Þetta er galin niðurstaða,“ segir Ómar.
Vörn Ómars í málinu var sú að skjólstæðingur hans þjáist af kynferðislegri svefnröskun (e. sexsomnia) sem gerði það að verkum að hann hafi verið sofandi þegar nauðgunin átti sér stað og ekki verið meðvitaður um gjörðir sínar. Fyrir dómi kom fram að skjólstæðingur Ómars þjáist sannarlega af umræddri röskun og því er um að ræða fyrsta mál sinnar tegundar hérlendis þar sem slík staðfesting liggur fyrir.
Hins vegar var það álit yfirmatsmanna að röskunin gæti útskýrt hegðun mannsins. Sú afstaða byggðist á því að samkvæmt gögnum úr síma hans væri afar ósennilegt að gerandinn gæti hafa sofið svo lengi að hann kæmist í djúpsvefn, sem er á að vera forsenda þess að röskunin eigi sér stað, og að aðstæður í herbergi parsins hafi verið með þeim hætti að allt benti til þess að gerandinn hafi verið með rænu þegar hann framdi ódæðið.
Að sögn Ómars var undirmatsmaður í málinu, Erla Björnsdottir, sem er einn helsti sérfræðingur landsins í svefnröskunum á öndverðum meiði og taldi útilokað að maðurinn hefði getað framið verknaðinn af ásetningi.
„Yfirmatsmennirnir, Tómas Zoega og Finnbogi Jakobsson, viðurkenndu það fyrir dómi að vera ekki sérfræðingar í svefnröskunum og töluðu í raun í beinni andstöðu við þær fræðigreinar sem þeir vitnuðu til,“ segir Ómar og furðar sig á niðurstöðu dómstólsins að dæma skjólstæðing hans sekan. Hann segist fullviss um að Landsréttur muni komast að réttri niðurstöðu.