Á morgun, föstudaginn 2. júní, verður aðalmeðferð við Héraðsdóm Reykjaness í máli manns sem Héraðssaksóknari hefur ákært fyrir rangar sakargiftir gegn fyrrverandi sambýliskonu mannsins.
Er maðurinn sakaður um að hafa veitt rangan framburð hjá yfirvöldum í því skyni að konan yrði að ósekju sökuð um refsiverðan verknað. Hafi hann að tilefnislausu sakað hana um þjófnað, fjársvik og skjalafals.
Ákæran er í tveimur liðum og er maðurinn annars vegar sakaður um rangan framburð hjá lögreglstjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Þar hafi hann ranglega sakað konuna um að hafa stolið farsíma og greitt fyrir vörur á sölusíðu með greiðslukorti hans. Leiddi þessi framburður til lögreglurannsóknar og var tekin skýrsla af konunni sem hafði réttarstöðu sakbornings.
Hins vegar er maðurinn sakaður um rangan framburð hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum. Segir orðrétt í ákæru: „Þann D með röngum framburði hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum sakað Y um skjalafals, með því að hafa föstudaginn D og þriðjudaginn D sama ár í blekkingarskyni ritað og framvísað sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu tvær greinargerðir í máli sýslumanns er varðaði umgengni við sameiginlegt barn þeirra, sem leiddi til þess að lögreglan hóf rannsókn á máli N.“
Héraðssaksóknari krefst þess að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Fyrir hönd konunnar er gerð krafa um miskabætur upp á 2,5 milljónir króna.