Fyrirtaka var í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli manns sem Héraðssaksóknari hefur ákært fyrir nauðgun.
Maðurinn er sakaður um að hafa nauðgað öðrum karlmanni fyrir tveimur árum, á heimili þess síðarnefnda. Hafði hann samfarir við manninn í endaþarm með ólögmætri nauðung og án samþykkis, að því er segir í ákæru. Sinnti hann því ekki þó að brotaþolin margbæði hann um að hætta. Brotaþolinn hlaut margar smásprungur við endaþarmsop af árásinni.
Héraðssaksóknari krefst þess að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Af hálfu brotaþola er gerð krafa um miskabætur upp á 3,5 milljónir króna. Einnig segir í texta ákærunnar þar sem fjallað er um einkaréttarkröfuna: „Þá er þess krafist að ákærða verði gert að greiða þóknun vegna réttargæslu að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á réttargæsluþóknun.“
Sem fyrr segir var fyrirtaka í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag en við fyrirtöku leggja málsaðilar fram gögn sín. Aðalmeðferð, sem er hin eiginlegu réttarhöld, verður síðar en DV er ekki kunnugt um dagsetningu réttarhaldanna. Fyrir liggur að þinghöld í málinu eru lokuð.