Arnar Grant er fórnarlamb svika og lyga Vítalíu Lazarevu og er að reyna að loka á samskiptin við hana. Þessu er haldið fram í nýjasta þætti Harmageddon í umsjón Frosta Logasonar á hlaðvarpsveitunni Brotkast sem ber einfaldlega heitið Játning Vítalíu. Í þættinum eru birt skjáskot af samskiptum Vítalíu og Arnars sem sá síðastnefndi veitti Frosta leyfi til að birta í þættinum.
Þar má meðal annars sjá skjáskot þar sem Vítalía hótar að henda Arnari og vinum hans, sem ætla má að séu Hreggviður Jónsson, Þórður Már Jóhannesson, Ari Edwald og Logi Bergmann Eiðsson „undir strætóinn“ sem viðbragð við því að Arnar ætli að hætta með henni. Skjáskotið er frá júlí 2021 en þá var um hálft ár liðið frá sumarbústaðaferðinni alræmdu og áttu Vítalía og Arnar enn í leynilegu ástarsambandi.
Í umræddum þætti Harmageddon er því haldið fram að gögnin sýni að Vítalía hafi farið í viðtalið af annarlegum hvötum og það sem þar kom fram hafi ekki verið sannleikanum samkvæmt. Fullyrt er að um hefndaraðgerð Vítalíu hafi verið að ræða í ljósi þess að hún taldi sig svikna af Arnari.
Þá eru einnig sýnd skjáskot af samskiptum Arnars og Vítalíu eftir viðtalið þar sem Vítalía segir það hafa verið rangt af sér að tækla málið með þessum hætti. Hún hafi einfaldlega upplifað sig niðurlægða af því að hún upplifði að Arnari væri slétt sama um sig.
Á öðrum stað má sjá skjáskot þar sem svo virðist sem Vítalía sé að spyrja hvað hún græði á því að leiðrétta rangfærslur um Arnar sem þá voru í hámæli.
Þá er fjallað um nýlega frétt DV af því að Arnar og Vítalía séu tekin saman aftur og flutt inn saman. Frosti hefur það eftir Arnari að fréttin sé ekki sannleikanum samkvæmt og sambandinu sé sannarlega lokið. Segir hann fréttina byggjast á því að Vítalía hafi sjálf komið þeim orðrómi af stað og að Arnar hafi neitað fyrir sambandið en þrátt fyrir það hafi fréttin verið birt.
Sjá einnig: Arnar og Vítalía aftur tekin saman – Búa saman í Garðabæ
Þær fullyrðingar eru þó í meira lagi ónákvæmar. Frétt DV byggðist á upplýsingum frá nágrönnum parsins en ekki ábendingu frá Vítalíu sjálfri. Eftir að fréttin var komin í loftið hafði lögfræðingur Arnars samband við ritstjórn DV og sagði sambandinu lokið og fréttina því ranga. Í samtali DV við Vítalíu eftir það fullyrti hún þó fréttin væri hárrétt. Var því ákveðið að halda fréttinni óbreyttri í loftinu en lögfræðingur Arnars þáði ekki boð um að athugasemd frá Arnari yrði bætt við fréttina.
Þá fjallar Frosti um viðbrögð fjölmiðla og nafntogaðra einstaklinga í kjölfar Pottaviðtalsins sem hann segir að hafi verið „sturluð“.