Bandaríski sendiherrann í Suður-Afríku hefur opinberlega sakað Suður-Afríku, sem er stórveldi álfunnar, um að útvega Rússum vopn til að nota í stríðinu gegn Úkraínu. Þessu vísa suðurafrísk stjórnvöld á bug og fullyrða að landið, eins og önnur Afríkuríki, sé hlutlaust hvað varðar stríðið í Úkraínu. Afríkuríkin vilja ekki lenda í pólitískri klemmu á milli Rússlands og Bandaríkjanna.
En efasemdir Bandaríkjamanna fengu byr undir báða vængi í síðustu viku þegar Lawrence Mbatha, yfirmaður suðurafríska hersins, fór til Moskvu til að funda með starfsbræðrum sínum þar. Rússneskir fjölmiðlar segja að þeir hafi rætt um hernaðarsamvinnu og að samið hafi verið um aukna samvinnu á ýmsum sviðum. Þessi aukna samvinna kemur í kjölfar stórrar flotaæfingar fyrr á árinum sem Kínverjar, Rússar og Suður-Afríkumenn héldu í sameiningu.
Cyril Ramaphosa, forseti Suður-Afríku, kynnti í síðustu viku fyrirhugaðar aðgerðir Afríkuríkja til að reyna að miðla málum á milli Rússa og Úkraínumanna. Hann sagði að bæði Vladímír Pútin og Volodymyr Zelenskyy séu jákvæðir í garð þess að ganga til viðræðna.
En fyrrnefnd ferð rússnesku flutningavélarinnar til Suður-Afríku og ferð Mbatha til Moskvu gera fátt annað en að styrkja Bandaríkjamenn í þeirri trú sinni að Suður-Afríka sé eitt nánasta bandalagsríki Rússa í Afríku. Þetta ýtir undir grunsemdir um að eitt og annað fari fram í skjóli myrkurs.