Landsréttur hefur staðfest og lítillega þyngt dóm yfir manni sem sakfelldur var í héraðsdómi fyrir líkamsárás gegn konu.
Maðurinn var ákærður og sakfelldur fyrir að hafa í október árið 2015 veist með ofbeldi að þáverandi sambýliskonu sinni, hrint henni, slegið hana í andlit og ítrekað með beltissylgju og sparkað undan henni fótunum svo hún féll á hægri öxl og hlaut af áverka. Viðbeinsbrotnaði konan, marðist og hlaut aðra áverka og sár.
Maðurinn krafðist sýknu. Hann neitaði að hafa lagt hendur á konuna og veitt henni áverka. „Hann hefur þvert á móti frá upphafi borið að það hafi verið brotaþoli sem réðst
að honum. Þá bar ákærði fyrir héraðsdómi að hann hefði hlotið áverka af völdum brotaþola. Þegar ákærði gaf skýrslu í tvígang hjá lögreglu undir rannsókn málsins gat
hann aftur á móti ekki um það,“ segir í dómi Landsréttar.
Lýsing konunnar á atvikum var hins vegar eftirfarandi, samkvæmt dómi Landsréttar:
„Brotaþoli hefur lýst málsatvikum með allt öðrum hætti en ákærði. Fyrir héraðsdómi bar brotaþoli að við að lesa skilaboð í síma ákærða, þar sem hann hefði lýst kynlífi með annarri stúlku, hefði hún brjálast og beðið hann um að yfirgefa íbúðina. Ákærði hefði ekkert viljað hlusta á hana og haldið áfram að sofa. Brotaþoli hefði ekki gefið sig en ákærði þá hrint henni og síðan kýlt hana í andlitið þannig að vörin sprakk. Brotaþoli kvaðst þrátt fyrir þetta hafa áréttað beiðni sína um að ákærði færi. Hann hefði þá tekið belti og slegið hana með beltissylgjunni í bak og bringu. Brotaþoli hefði verið í áfalli vegna þessarar framgöngu ákærða og yfirgefið svefnherbergið. Ákærði hefði komið fram á eftir henni og sparkað í fætur hennar. Við það hefði brotaþoli fallið í gólfið og lent á hægri öxlinni. Hún hefði legið eftir grátandi en ákærði farið aftur inn að sofa. Í kjölfarið kvaðst brotaþoli hafa hringt í vinkonu sína, C, og fengið hana til þess að keyra sig á slysadeild þar sem hún hefði fundið að eitthvað mikið var að öxlinni. Á slysadeildinni hefði læknir skoðað hana og af henni verið teknar ljósmyndir. Síðar um daginn hefði hún sagt foreldrum sínum frá því sem gerðist.“
Bent er á að framburður brotaþola fái stoð í læknisvottorði og fleiri gögnum. Landsrétti þótti framburður hins ákærða hins vegar ekki trúverðugur og var hann sakfelldur og dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi.
Dóma Landsréttar og héraðsdóms í málinu má lesa hér.