Héraðssaksóknari hefur ákært rúmlega þrítugan mann fyrir brot gegn valdstjórninni en maðurinn er sakaður um að hafa beitt hjúkrunarfræðing, konu á miðjum aldri, grófu ofbeldi í móttökusal bráðadeildar Landspítalans í Fossvogi. Atikið átti sér stað fyrir einu ári, sunnudaginn 8. maí árið 2022.
Í ákæru segir að maðurinn hafi veist með ofbeldi að hjúkrunarfræðingnum sem var við skyldustörf, sprautað sótthreinsivökva í andlit hennar, tekist á við hana og veitt henni högg í andlit með gifsklæddri hendi, allt með þeim afleiðingum að hún hlaut mar á hægra kinnbeini, eymsli í nefrót og hægra megin á enni, stífleika í hálsi og herðum, bólgu og eymslu í báðum ökklum og eymsli og bólgu í fingrum hægri handar.
Héraðssaksóknari krefst þess að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Hjúkrunarfræðingurinn gerir kröfu á manninn um miskabætur upp á eina milljón króna.
Málið verður þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á föstudaginn, þann 19. maí.