Héraðssaksóknari hefur ákært þrítugan mann fyrir mjög ógnandi hegðun á Glerártorgi á Akureyri, laugardaginn 3. september 2022. Er maðurinn ákærður fyrir brot gegn vopnalögum og almennum hegningarlögum og fyrir brot gegn valdstjórninni.
Hann er í fyrsta lagi ákærður fyrir að hafa borið hníf á almannafæri innandyra á veitingastað á Glerártorgi. Í öðru lagi er hann ákærður fyrir að hafa ógnað manni með hnífnum inni á veitingastaðnum og hótað honum líkamsmeiðingum. Hélt hann hnífnum á lofti og beindi honum að manninum.
Í þriðja lagi er hann ákærður fyrir að hafa hótað og ógnað öðrum manni inni á veitingastaðnum með nákvæmlega sama hætti.
Í fjórða lagi er maðurinn ákærður fyrir að hafa hótað lögreglumönnum líkamsmeiðingum og lífláti í lögreglubíl og í fangaklefa á lögreglustöðinni við Þórunnarstræti á Akureyri.
Héraðssaksóknari krefst þess að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Einnig að hann sæti upptöku á hnífnum.
Málið verður þingfest við Héraðsdóms Norðurlands eystra 25. maí næstkomandi.