En þessi 100 km regla er ekki mikils virði núna. Ástæðan er að síðasta fimmtudag tilkynnti Ben Wallace, varnarmálaráðherra Bretlands, breska þinginu að breska ríkisstjórnin hefði ákveðið að verða við ósk Úkraínumanna um að fá langdræg flugskeyti.
Hann sagði að Úkraínumenn myndu fljótlega, eða hefðu kannski nú þegar, fengið Storm Shadow stýriflaugar frá Bretum.
Þetta eru stýriflaugar sem er skotið frá flugvélum. Þær eru með öfluga sprengiodda, eru byggð á „stealth“ tækni (sem gerir ratsjám erfitt fyrir við að sjá þær) og geta dregið um 300 kílómetra með óhugnanlega mikilli nákvæmni við að finna skotmark sitt.
Þessar stýriflaugar geta því náð til svæða langt að baki víglínanna, svæða sem hafa verið örugg gagnvart úkraínskum árásum til þessa.
Jótlandspósturinn hefur eftir Jacob Kaarsbo, sérfræðingi hjá dönsku hugveitunni Tænketanken Europa og fyrrum starfsmanni leyniþjónustu danska hersins, að Storm Shadow stýrflaugarnar geti skipt sköpum fyrir yfirvofandi gagnsókn Úkraínumanna.
„Þetta breytir miklu. Héðan í frá geta Úkraínumenn náð til rússneska baklandsins þar sem birgðageymslur, lagerar og flutningsleiðir eru. Þeir geta ekki lengur falið sig í 100 km fjarlægð. Þess vegna er svo mikilvægt fyrir Úkraínumenn að fá þær núna. Möguleikinn á að veikja rússnesku birgðalínurnar mun auka líkurnar á að úkraínska gagnsóknin heppnist vel,“ sagði hann.
Ben Wallace skýrði ekki frá hversu margar Storm Shadow flaugar verða sendar til Úkraínu en talið er að Bretar eigi 700-1.000 slíkar. Hann var líka ónákvæmur varðandi það hvort stýriflaugarnar séu nú þegar komnar til Úkraínu.
Jacob Kaarsbo sagðist ekki verða hissa ef þær séu nú þegar komnar til Úkraínu. „Ég get vel ímyndað mér að þegar við vöknum á næstu dögum eða kannski á morgun, þá sjáum við myndir af logandi skotfærageymslum,“ sagði hann.