Það er Slóvakía sem er á barmi þess að skipta um lið.
Eduard Heger, sem er hliðhollur Vesturlöndum og Úkraínu, lét af embætti forsætisráðherra þann sjöunda maí. Ludovit Odor, aðstoðarbankastjóri seðlabanka landsins, tók við embættinu af honum og leiðir starfsstjórn fram að kosningum í september.
Þessi þróun hefur orðið til þess að Robert Fico, fyrrum forsætisráðherra, hefur ákveðið að láta að sér kveða á nýjan leik. Hann neyddist til að segja af sér eftir fjöldamótmæli 2018 í kjölfar morðsins á hinum unga blaðamanni Jan Kuciak sem rannsakaði spillingu innan stjórnarflokks Fico og meðal elítunnar í viðskiptalífinu.
En nú sækir miðju-vinstri flokkur Fico, Smer, í sig veðrið samkvæmt skoðanakönnunum og gæti orðið stærsti þingflokkurinn í september. Næst stærsti flokkurinn gæti orðið Hlas sem var stofnaður af óánægðum flokksmönnum Smer.
Ef niðurstöður skoðanakannana ganga eftir mun það hafa mikil og neikvæð áhrif fyrir frelsisbaráttu Úkraínumanna.
Slóvakar hafa gefið Úkraínumönnum mikið af vopnum sínum, frá tíma Sovétríkjanna. Nú síðast lofuðu þeir að gefa þeim alla T-72 skriðdreka sína. Áður höfðu þeir gefið þeim allar 13 MiG-29 orustuþotur sínar.
En þess utan er Slóvakía mikilvæg flutningsleið fyrir vestræn vopn til Úkraínu. Til dæmis sendu Bretar nýlega fjölda stórskotaliðsbyssa til Úkraínu í gegnum Slóvakíu.
Í Slóvakíu er einnig verkstæði þar sem brynvarin þýsk ökutæki fá nauðsynlega þjónustu. Þar er einnig nýstofnsett bardagasveit NATO undir tékkneskri stjórn. Í henni eru um 1.000 hermenn.
Ef Fico kemst til valda getur þetta allt breyst. Hann er hliðhollur Rússum og hefur líkt hersveitum NATO við þýska nasista og sakað úkraínska ráðamenn um að vera fasista og að þeir hafi átt upptökin að stríðinu í austanverðri Úkraínu 2014.
Hann hefur lofað kjósendum sínum að hann muni stöðva vopnasendingar í gegnum landið ef hann sigrar og að hann muni beita neitunarvaldi í ESB ef grípa á til nýrra refsiaðgerða gegn Rússlandi.
Sigur hans myndi bæta á þá ósamstöðu sem er innan ESB og NATO varðandi stuðning við Úkraínu. Ungverjar hafa ekki viljað veita Úkraínu hernaðarstuðning né heimila vopnaflutninga í gegnum landið.